Mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:51:51 (4338)

2004-02-18 13:51:51# 130. lþ. 66.1 fundur 539. mál: #A mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að hreyfa hér við máli sem áður hefur reyndar borið á góma í sölum Alþingis, um mengun sem fyrirfinnst á Heiðarfjalli á Langanesi sem afleiðing af bandarísku herstöðinni sem þar var byggð á sjötta áratugnum og rekin fram til 1971.

Ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. utanrrh. af þessum sökum og sú fyrsta er svohljóðandi:

,,Hefur ráðherra fylgt eftir eða brugðist á einhvern hátt við sameiginlegri kröfu norrænu umhverfisverndarsamtakanna um hreinsun á Heiðarfjalli á Langanesi sem send var bandarískum stjórnvöldum í desember sl.?``

Heildarsamtök umhverfisverndarfólks á Norðurlöndum --- fulltrúi í því samstarfi af Íslands hálfu er Landvernd --- hittust í Tammisaari í Finnlandi í desembermánuði sl. og sendu frá sér sameiginlegt erindi til utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og afrit til hæstv. utanrrh. þar sem lýst er óviðunandi ástandi hvað varðar mengun, rusl sem liggur í landi jarðarinnar Eiðis og reyndar fleiri jarða við Heiðarfjall sem afleiðingar af starfrækslu bandarísku radarstöðvarinnar þar á sínum tíma. Sú krafa er reist að stjórnvöld axli ábyrgð á þessu ástandi og svæðið verði hreinsað.

Í öðru lagi spyr ég:

,,Hefur ráðherra fylgst með framvindu mála þar sem hreinsun er hafin á menguðum jarðvegi í sambærilegum yfirgefnum herstöðvum Bandaríkjahers, svo sem á Resolution-eyju í Nunavut í Kanada?``

Þar er nú hafið mikið hreinsunarátak og til stendur að flytja a.m.k. 5 þús. rúmmetra af PCB-menguðum jarðvegi til viðurkenndrar hreinsunarstöðvar suður í Québec-fylki í Kanada. Þetta mun augljóslega kosta ærna fjármuni en er gert vegna þess að þarna er um mikla mengun að ræða frá starfsemi sem var að öllu leyti hliðstæð við starfrækslu stöðvarinnar á Heiðarfjalli. Stöðin var byggð á sama tíma, rekin í svipaðan árafjölda, umfang rekstrarins var nokkurn veginn það sama og það er ástæða til að ætla að sömu mengandi efnin, sömu olíufylltu rafspennarnir og annað sem þarna veldur mengun, hafi verið notað í báðum tilvikum.

Í þriðja lagi spyr ég:

,,Hvað hefur ráðherra aðhafst til að tryggja að íslenskir aðilar, landeigendur, sveitarfélag og stofnanir, nái rétti sínum í þessu máli gagnvart þeim yfirvöldum, bandarískum eða innlendum, sem ábyrgð bera á ástandinu á Heiðarfjalli?``

Það getur auðvitað ekki gengið að svona máli sé drepið á dreif árum og áratugum saman og að allar til þess bærar stofnanir virðist vísa því frá sér að taka á málinu þannig að landeigendur, sveitarfélag, hollustu- og heilbrigðisyfirvöld og aðrir slíkir komast ekkert áfram með málið.

Að síðustu spyr ég:

,,Hefur ráðherra skoðað réttarstöðu málsaðila í deilum um mengun á Heiðarfjalli út frá grundvallarreglum Ríó-yfirlýsingarinnar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótareglunni?`` --- Það er sú regla að sá sem veldur mengun beri ábyrgð á henni og borgi fyrir hana.