Mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:00:47 (4340)

2004-02-18 14:00:47# 130. lþ. 66.1 fundur 539. mál: #A mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og kom svo sem fátt í þeim á óvart. Ég vil þó segja að lengi getur maður orðið hissa og sérstaklega verð ég að segja að það gilti um síðasta svar hæstv. ráðherra. Það er auðvitað furðulegt að halda því fram að vegna þess að núgildandi viðhorf og alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum hafi komið til sögunnar eftir að þessi herstöð var rekin á Heiðarfjalli þá skipti þær ekki máli gagnvart því hvernig menn meta ástandið þar í dag. Það er það sem er verið að spyrja um, hæstv. ráðherra. Er ekki ljóst að varúðarreglan á að eiga við um það mengunarástand sem þarna er eða getur skapast í framtíðinni þegar niðurgrafið rusl fer að ryðga sundur og geymar að leka og annað slíkt sem sannanlega var urðað þarna, hent og urðað í stórum stíl. Þetta vita allir sem til þekkja á staðnum.

Ég hygg að hæstv. ráðherra sé kunnugur öðru dæmi þar sem er frágangur á rusli á Stokksnesstöðinni og mengun sem þar hefur verið staðfest þannig að það þarf ekki Heiðarfjall til. Mengun af völdum erlendrar hersetu er að finna víðar í landinu þó að hún sé stórfelldust í Keflavík.

Stjórnvöld hljóta auðvitað að bera ábyrgð, ekki bara gagnvart landeigendunum, gagnvart sveitarfélaginu, gagnvart hollustu- og heilbrigðisyfirvöldum, heldur sem yfirvöld þessara mála í landinu. Hvað segir hæstv. umhvrh.? Er þá hægt að yppa öxlum og segja: Landeigendur verða að fara í skaðabótamál. Landeigendur verða að sýna fram á það með rannsóknum að mengun sé til staðar. Landeigendur verða að sýna fram á tjónið. Ábyrgðinni er varpað yfir á þá, landeigendur, sveitarfélag og vanmegnuga aðila og stjórnvöld yppa öxlum hafandi hvítþvegið Bandaríkjamenn af allri ábyrgð á viðskilnaði sínum þarna.

Auðvitað gengur þetta ekki svona, frú forseti. Ruslið þarna er í leyfisleysi á landi í einkaeigu í óþökk landeigenda, sveitarfélags og heilbrigðisyfirvalda svæðisins. Það er ekki hægt að umgangast þessa hluti með þessu kæruleysi og með því að drepa málunum endalaust á dreif eins og gert hefur verið í þessum málum.