Nám í listgreinum á háskólastigi

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:11:37 (4344)

2004-02-18 14:11:37# 130. lþ. 66.2 fundur 397. mál: #A nám í listgreinum á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég verð að lýsa þó nokkrum vonbrigðum með þetta svar. Mér finnst málinu í raun og veru ekki miða hænufet og ef eitthvað er heldur aftur á bak. Nú er nokkurt vatn til sjávar runnið síðan menn voru að reyna að koma hreyfingu á þessi mál fyrir aldamótin síðustu, þ.e. á árinu 1999, og nú er hér upplýst að sú ákvörðun ráðuneytisins, sem svo er kölluð, frá síðasta ári að það þurfi að skoða þetta allt saman ákaflega vel og leyfa meiri tíma að líða --- eða ég veit ekki hvernig ég á að túlka það, ég ætla ekkert að gera mönnum upp skoðanir eða leggja mönnum orð í munn en einhvern veginn þannig hljómaði þetta í mínum eyrum --- áður en nokkuð verður aðhafst, þ.e. að það sé bara einhvers konar óskilgreind biðstaða uppi í málinu og Listaháskóli Íslands eigi að þroskast o.s.frv.

Vandræðin eru auðvitað þau að það hlýtur að fjara undan því stórmerka starfi sem unnið hefur verið norðan heiða á sviði listnáms. Myndlistarskólinn á Akureyri er meira en aldarfjórðungs gamall og hefur unnið stórmerkt starf en hann, eins og reyndar fleira listnám á framhaldsskólastigi, hangir dálítið í lausu lofti og það þarf að taka þarna einhverja stefnu. Langbest væri auðvitað að þar væru menn metnaðarfullir og settu markið á listnám á háskólastigi. Ég gef ekki mikið fyrir þessi formlegheit eða þennan vandræðagang að það sé ekki hægt að koma því fyrir með einhverjum skilmerkilegum hætti. Hvort það er kallað fullgilt listnám á háskólastigi í formi sérstakrar deildar eða hvort það er með einhverjum öðrum formerkjum hvernig um samstarfið er búið við Háskólann á Akureyri og við Listaháskólann, er allt saman útfærsluatriði. Þetta eru allt verkefni til að vinna og leysa en ekki til að láta það fyrir fram stoppa sig í að nokkur skapaður hlutur gerist. Ég skora því á hæstv. menntmrh., nýkomna í starfið og fulla af krafti og áhuga, vaska manneskjuna, að setja þetta mál aftur í einhvern formlegan vinnslufarveg. Það er greinilega meira og minna afvelta í dag og það er algerlega óþolandi ástand.