Verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:24:47 (4350)

2004-02-18 14:24:47# 130. lþ. 66.3 fundur 513. mál: #A verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegur forseti. Af orðum hv. þm. mátti ráða að í lagi væri að vera með þessi mál í þessum farvegi, þ.e. verktöku í þessum mæli, ef launin væru nægjanlega há, þá væri þetta fyrirkomulag í lagi. Það mátti ráða af orðum hv. þm. (ÁRJ: Þetta er útúrsnúningur.) Ef svo er þá verður hv. þm. bara að leiðrétta mig hvað það varðar.

Ég mótmæli því að nokkuð skorti upp á starfsmannastefnu hjá yfirstjórninni því að við vitum og ég veit að hv. þm. veit það líka vegna reynslu sinnar innan Ríkisútvarpsins sem dagskrárgerðarmaður --- hún hefur alla tíð fylgst vel með dagskrá Ríkisútvarpsins --- að þetta er þannig upp byggt að ákveðinn sveigjanleiki þarf að vera til staðar. Dagskráin breytist frá hausti til hausts og frá vori til vors. Við vitum það. Og þá um leið þarf ákveðinn sveigjanleiki að vera til staðar fyrir stjórnendur til þess að hægt sé að bregðast við m.a. þörfum hlustenda og þeirra sem njóta dagskrárinnar með því að ákveða hvað eigi að setja inn á dagskrána hverju sinni.

Ég vil benda á og ítreka enn og aftur að þau mál sem tengjast spurningum hv. þm. eru í ákveðnum farvegi. Þau eru í ákveðnum stjórnsýslufarvegi. Skattyfirvöld hafa þau til meðferðar og á meðan svo er þá tel ég ekki rétt að ég tjái mig um þau að svo stöddu.