Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:37:10 (4355)

2004-02-18 14:37:10# 130. lþ. 66.4 fundur 444. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég svaraði þessum spurningum mjög skilmerkilega og það liggur alveg ljóst fyrir að það eru til svör við öllum þessum spurningum. Það liggur alveg skýrt fyrir hvernig lögin eru og hvaða reglur gilda í þessu landi.

Það liggur líka fyrir hverjir dæma um þetta. Það hefur verið dæmt samkvæmt þessum lögum. Það liggur líka fyrir hverjir hafa heimild til að kæra og það liggur líka fyrir hverjum ber sérstaklega að sinna þessum málum eins og öðrum lögbrotum í landinu.

Ef hv. þm. hefur 20 dæmi um það að lögin hafi verið brotin finnst mér að hann eigi að kæra það til lögreglunnar, láta rétt yfirvöld vita um það og rökstyðja það. Þá verður tekið á því. Þannig á hinn löghlýðni borgari að ganga fram. Ef hann sér að það er verið að fremja lögbrot eða hann telur að verið sé að fremja lögbrot á hann að láta rétt yfirvöld vita um það. Það felst ekkert ámæli í því, hvorki í garð Lýðheilsustofnunar eða lögreglunnar, að lesa upp hvaða skyldur þessir opinberu aðilar hafa lögum samkvæmt. Ef hv. fyrirspyrjandi telur að lögunum sé ábótavant hefur hann tækifæri hér til þess að flytja breytingar um lögin. Ég sé ekki að þetta sé vandi dómsmrh. Þetta er frekar vandi fyrirspyrjandans. (Gripið fram í: ... dómsmrh.)