Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:47:07 (4359)

2004-02-18 14:47:07# 130. lþ. 66.5 fundur 512. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég endurtek það að ég legg mikla áherslu á að starfshópurinn skili af sér í næsta mánuði og ég tek undir það með fyrirspyrjanda að það er brýn nauðsyn að fara í þessa vinnu. Það hefur auðvitað komið í ljós í þessari vinnu allri og reyndar hef ég orðið þess var í starfi mínu í ráðuneytinu að það er brýn nauðsyn að hafa heildaryfirsýn og nýta þá fjármuni sem best sem eru í þessum geira og þessi vinna er nauðsynlegur grundvöllur að því. Leitast hefur verið við að afla sem bestra upplýsinga um þessi mál í nágrannalöndum okkar og aðstoð sérfræðinga á þessu sviði er einn þátturinn í því máli, en ég vil aðeins undirstrika það að brýna nauðsyn ber til að samhæfa kraftana í þessari vinnu. Þessi mál skarast eins og sum önnur mál gera óhjákvæmilega að einhverju leyti á milli ráðuneyta. Það er því grundvallaratriði að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um heildarskipulag þessara mála og reynsluna af því starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár, en það hafa vissulega miklir fjármunir farið í þetta starf og mikil vinna verið innt af hendi í þessum málum á undanförnum árum.