Málefni heilabilaðra

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:49:30 (4360)

2004-02-18 14:49:30# 130. lþ. 66.6 fundur 545. mál: #A málefni heilabilaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda er að gera öldruðum fært að dvelja á heimilum sínum eins lengi og kostur er og auka stoðþjónustu til að það sé gerlegt. Það er dýrmætt fyrir heilabilaða, en algengur fylgifiskur þess sjúkdóms er óöryggi og hræðsla sjúklings við ókunnugt umhverfi. Slík úrræði hljóta þó ætíð að byggjast á að fyrir hendi séu viðunandi aðstæður, ekki einungis fyrir þann sjúka heldur einnig fyrir aðstandendur viðkomandi sem takast á hendur umönnunar- og gæsluhlutverk. Mat á getu sjúklingsins og aðstæðum er erfitt og vandasamt, ekki síst þar sem sjúklingar segjast gjarnan færari og frískari en raun er á og aðeins þeir sem umgangast viðkomandi náið vita betur.

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, skrifaði grein í Morgunblaðið nýlega þar sem hann lýsir m.a. aðstæðum nokkurra einstaklinga sem stríða við heilabilun og búa í heimahúsum. Lýsing Ólafs kemur heim og saman við upplýsingar fleiri aðstandenda sem líkt og lýst er í greininni verða fyrir miklu andlegu og líkamlegu álagi, missa úr vinnu og hætta á atvinnumissi vegna fjarvista við umönnun ættingja eða maka. Einnig eru makar oft sjálfir aldraðir og heilsuveilir og tefla sjálfum sér í tvísýnu með því að takast á hendur umönnunina. Fyrir þá einstaklinga er bið eftir viðeigandi vistunarrými alvarlegt, í raun lífshættulegt vandamál.

Eitt af því sem fylgir hækkuðum aldri er fjölgun heilabilaðra, en samkvæmt fréttum nýverið óttast breskir og bandarískir sérfræðingar að alzheimerfaraldur muni ganga yfir heiminn á næstu áratugum. Þeir spá því að árið 2050 muni alzheimersjúklingum hafa fjölgað um 150% frá því sem nú er. Talið er að elliglöp geri vart við sig hjá einum af hverjum fimm einstaklingum um áttrætt. Það er því brýnt að við gerum okkur grein fyrir hvernig staðan er í samfélagi okkar, bæði með tilliti til nútíðar og framtíðar.

Ég legg því eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

1. Hvað hafa margir heilabilaðir einstaklingar verið á biðlista eftir viðeigandi dvalarrými, skipt eftir árum frá árinu 2000?

2. Hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana til að stytta biðlistana? Ef svo er, til hvaða ráðstafana?

3. Hvaða stuðningur stendur til boða þeim aðstandendum sem annast heilabilaða í heimahúsum?

4. Hefur verið metið hver áhrif ónógt dvalarrými hefur á atvinnuþátttöku og heilsufar aðstandenda sem annast heilabilaða í heimahúsum?