Kadmínmengun í Arnarfirði

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:05:13 (4365)

2004-02-18 15:05:13# 130. lþ. 66.7 fundur 109. mál: #A kadmínmengun í Arnarfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Til mín er beint fyrirspurn um hvaða rannsóknir hafi verið gerðar til að kanna ástæður og útbreiðslu kadmínmengunar í Arnarfirði og hvort ráðuneytið hyggist beita sér fyrir frekari rannsóknum á þessari mengun.

Því er til að svara að styrkur kadmíns í vöðva hörpudisks úr Arnarfirði hefur greinst yfir settum viðmiðunum sem eru 0,5 mg á kíló. Hefur Fiskistofa þess vegna bannað veiðar og vinnslu hörpudisks úr firðinum eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Við vöktun á efnamengun í lífríki sjávar á vegum umhvrn. fara fram mælingar á aðskotaefnum í lifur þorsks, sandkola og í kræklingi. En í holdi þorsks og sandkola er mælt kvikasilfur.

Í skýrslu starfshóps umhvrn. frá 1999 er gerður samanburður á styrk þungmálma í þessum lífverum frá Íslandsmiðum og frá öðrum hafsvæðum. Þar kemur m.a. fram að styrkur kadmíns í lifur íslenska þorsksins er hár miðað við þorsk frá öðrum hafsvæðum. Ástæður þess hve hár styrkur kadmíns er í lífríki við Íslands eru ekki þekktar en talið er að skýringa sé að leita í náttúrulegum aðstæðum fremur en vegna mengunar af mannavöldum, enda eru engar þekktar uppsprettur kadmínmengunar hér á landi.

Fram hafa komið tillögur að rannsóknarverkefnum sem hafa að markmiði að leita að uppsprettum þessa kadmíns og svara spurningunni um orsakir hins háa styrks. Sótti sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um styrk á liðnu ári til slíkrar rannsóknar undir heitinu ,,Upptaka ólífrænna snefilefna í lífverum við Norðvesturland``. Markmið verkefnisins er m.a. að rannsaka sérstöðu norðvesturmiða með tilliti til ólífrænna snefilefna, einkum kadmíns. Sýnataka og undirbúningur er hafinn, m.a. í Arnarfirði. Í þessari rannsókn er ætlunin að rannsaka set og rækju, auk hörpudisksins. Áætlaður kostnaður við verkefnið nemur rúmum 12 millj. kr.

Á árinu 2003 styrkti AVS-sjóðurinn --- sjóður til að auka verðmæti sjávarfangs --- verkefnið um 2,5 millj. kr. Fyrirhuguð lok verkefnisins eru áætluð fyrri hluta árs 2005.

Í áætlun um vöktunarverkefni umhvrn. vegna efnamengunar fyrir 2003 er gert ráð fyrir að veita 300 þús. kr. í mælingar á seti vegna kadmínmengunar í Arnarfirði. Umhvrn. mun halda áfram að stuðla að nauðsynlegri almennri vöktun en það er álit Umhverfisstofnunar, sem sér um umsýslu vöktunarverkefna vegna efnamengunar fyrir umvrn., að öflugra grunnrannsókna fremur en vöktunarrannsókna sé þörf til að skýra sérstöðu íslenska hafsvæðisins hvað varðar styrk kadmíns. Ég tel eðlilegt að menn fái úr því skorið af hvaða orsökum þessi kadmínmengun er.