Malarnám í Ingólfsfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:17:05 (4370)

2004-02-18 15:17:05# 130. lþ. 66.8 fundur 129. mál: #A malarnám í Ingólfsfjalli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvaða tök hefur ráðherra á að stöðva malarnám vestarlega í suðurhlíðum Ingólfsfjalls í Árnessýslu?``

Því er til að svara að það malarnám sem stundað er í suðurhlíðum Ingólfsfjalls var hafið áður en lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, tóku gildi en þau tóku gildi 1. maí 1994. Framkvæmdin var því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sama gildir um ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, sbr. 2. mgr. 47. gr. en þar segir að öll efnistaka af landi eða úr hafsbotni innan netalagna sé háð framkvæmdarleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar og um hana fari skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þessi ákvæði skipulags- og byggingarlaga um framkvæmdarleyfi ná ekki yfir malarnám í Ingólfsfjalli þar sem lögin tóku gildi 1. janúar 1998 eða löngu eftir að malarnámið hófst.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er landið allt skipulagsskylt og er aðalskipulagsgerð og deiliskipulagsgerð í höndum sveitarfélaganna. Samkvæmt lögunum, samanber og skipulagsreglugerð nr. 400/1998, ber að fjalla um slíkt efnisnám við gerð aðalskipulags en það er eins og áður segir sveitarfélaganna að taka á þeim málum. Það má því segja að umhvrh. hafi ekki tök á því að skipta sér formlega af þessu máli. Sú er staða málsins gagnvart ráðherra.

Ef taka ætti á málinu innan umhvrn. miðað við þessar aðstæður má segja að eina leiðin sem til greina kæmi væri friðlýsing í samræmi við lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Sú leið er þó vafasöm eins og málum er háttað, enda hafa þær stofnanir sem lögum samkvæmt skulu gera tillögur um friðlýsingar ekki gert slíkar tillögur svo sem við undirbúning náttúruverndaráætlunarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi og er til umfjöllunar. Það má því segja, virðulegi forseti, að staða ráðherra í þessu máli er mjög veik.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hver er skoðun ráðherra á þessu malarnámi sem veitt hefur fjallinu áberandi og óbætanlegt svöðusár?``

Því er til að svara að Ingólfsfjall er eins og hér hefur komið fram mjög formfagurt fjall, liggur í alfaraleið og hefur veruleg áhrif á ásýnd vestanverðrar Árnessýslu svo ekki sé talað um sögulegt gildi fjallsins þar sem Ingólfur Arnarson átti sína fyrstu vetursetu er hann kom til landsins. Þær framkvæmdir sem stundaðar hafa verið í fjallinu eru til lýta og ber að taka þær alvarlega. Þess ber þó að geta að á sínum tíma þegar þessi efnistaka hófst, en síðan eru liðnir margir áratugir, voru viðhorf til landslags önnur en þau eru í dag. Að mínu mati væri æskilegt að hér yrði breyting á þannig að fjallinu yrði hlíft, en eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, þá hefur ráðherra lítil tök á því máli.

Eðlilegt væri að sveitarfélagið sem hlut á að máli, þ.e. sveitarfélagið Ölfus, tæki á þessu máli við gerð skipulags og reyni að finna aðrar leiðir til efnistöku og skilst mér að verið sé að leita leiða til þess.

Þá vil ég að lokum nefna að síðasta sumar skipaði ég starfshóp sem falið var að fjalla um námur sem eru í notkun og svo háttar til um að hvorki falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum né ákvæði skipulags- og byggingarlaga um framkvæmdarleyfi. Það er von mín að sú nefnd muni ljúka störfum á næstu vikum og er hugsanlegt að þar komi einhverjar tillögur sem nýst gætu varðandi þetta mál. Ég get ekki útilokað það.