Malarnám í Ingólfsfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:23:47 (4373)

2004-02-18 15:23:47# 130. lþ. 66.8 fundur 129. mál: #A malarnám í Ingólfsfjalli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér var spurt: ,,Hvert verður framhaldið?`` Eins og ég sagði áðan er það von mín að sveitarfélagið Ölfus skoði þetta mjög alvarlega við gerð skipulagsins hjá sér og reyni að finna aðrar lausnir en þær sem nú eru stundaðar.

Varðandi malarnám almennt get ég staðfest --- ég þori ekki að staðfesta nákvæmlega tölurnar sem hér komu fram af því að ég hef þær ekki í handraðanum --- en ég get staðfest að námur á Íslandi eru geysilega margar, alveg ótrúlega margar. Unnið er að því að loka þeim sem ekki eru notaðar, verið er að loka gömlum námum og ganga frá þeim og þar er unnið eftir áætlun. Samkvæmt áætluninni átti það verk að ganga hraðar en raun er á þannig að okkur hefur ekki tekist að halda í við þá áætlun, en þó er verið að reyna að vinna þetta eins hratt og hægt er en þegar áætlunin var sett fram, tel ég að hún hafi verið sett fram af nokkurri bjartsýni.

Ég vil koma því á framfæri í þessari umræðu að innan Vegagerðarinnar hafa menn tekið mjög miklum framförum varðandi sínar malarnámur og standa prýðilega að þeim málum. En fortíðin er þannig að margar eru opnar en við vinnum eftir áætlun við að loka þeim.