Háskóli á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:42:19 (4375)

2004-02-18 15:42:19# 130. lþ. 67.23 fundur 317. mál: #A háskóli á Vestfjörðum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa tillögu sem hv. 1. flm. málsins, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, kynnti. Ég tek undir mjög margt sem hann sagði í ræðu sinni. Það er alveg ljóst að á Vestfjörðum vilja menn fá háskóla og komast lengra á þeirri braut sem við höfum mótað á undanförnum árum varðandi nám á háskólastigi. Vestfirðingar telja almennt að það verði best gert með því að stofna til háskóla á Vestfjörðum. Þess vegna tek ég fyllilega undir þá tillögu sem hér er flutt af hv. þingmönnum.

Ég tel meira en tímabært að stíga þetta skref og móta þá framtíðarstefnu að á Ísafirði muni rísa háskóli sem komi til með að dafna og efla líf og menntun þar á næstu árum. Vestfirðingar vonast til að með batnandi samgöngum og áföngum í samgöngumálum verði betra að komast milli svæða innan Vestfjarða en er í dag. Til þess hefur verið stofnað í samgönguáætlun og fyrirhuguðum aðgerðum í vegamálum. Að því er verið að vinna og mun vonandi unnið að því í framtíðinni. Svæðið ætti í heild að hafa betri aðgang að háskóla sem staðsettur væri á Ísafirði.

Það er mikið mál fyrir okkur Vestfirðinga að samgöngurnar batni og við getum nýtt okkur þá þjónustu af þessu tagi í fjórðungnum.

Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vísaði til áðan er mikill og eindreginn stuðningur við þetta mál heima á Vestfjörðum. Ég vonast til að aðrir hv. þingmenn líti þetta mál sömu augum og þegar stofnað var til Háskólans á Akureyri, sem skipti miklu máli fyrir þróun Norðurlands, þróun byggðar og kjölfestu á Mið-Norðurlandi. Ég tel að með þessu yrðu stigin skref sem ættu að geta markað okkur betri búsetuskilyrði og fastari kjarna í byggðinni vestur á fjörðum heldur en er í dag. Ég tek undir þau sjónarmið að það eigi m.a. að gera með því sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þetta mál.