Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:44:43 (4383)

2004-02-19 10:44:43# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Þann 30. apríl 2002 samþykkti Alþingi þáltill. um deilur Ísraels og Palestínumanna sem flutt var af utanrmn. Í þál. er ofbeldið fyrir botni Miðjarðarhafs fordæmt og þess krafist að ofbeldisverkum linni, öryggi borgara verði tryggt og mannréttindi virt. Þá var jafnframt skorað á Ísrael að draga herlið sitt til baka af sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna og að deiluaðilar hæfu friðarviðræður.

Síðasta sumar átti ég fund með sendifulltrúum beggja ríkja. Fyrst átti ég fund með sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi og síðar formanni sendinefndar Palestínu gagnvart Íslandi. Það var mjög athyglisvert að hlýða á málflutning beggja aðila. Strax varð ljóst að mikið bar á milli. Jafnframt vakti það athygli mína að aðilar litu Vegvísi til friðar ekki sömu augum. Í viðtölum mínum við fulltrúa ríkjanna kom greinilega fram að málefni flóttamanna og hryðjuverkaárásir væru mál sem deiluaðilarnir ættu erfitt með að taka á. Reikna verður með að mikill fjöldi flóttamanna snúi aftur til heimkynna sinna þegar friður kemst á.

Varðandi ofbeldisverk á svæðinu koma andstæð sjónarmið greinilega fram. Ísraelsmenn telja sig ekki geta annað en brugðist við hryðjuverkum Palestínumanna og Palestínumenn segja Ísraela beita sams konar aðgerðum í skjóli ríkisvalds. Á því telja þeir engan mun. Ég gat greinilega heyrt það á þeim að vilji væri til að treysta Vegvísinum en aðilar ættu hins vegar mjög erfitt með að treysta hver öðrum.

Alþjóða Rauði krossinn ályktaði um múrinn í dag og ljóst að múrinn mun ekki auðvelda lausn deilunnar. Með þessu er verið að girða fyrir friðarferlið. Hæstv. utanrrh. hefur einmitt lýst þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda til þessa máls.

Hæstv. forseti. Það er mjög erfitt fyrir alþjóðasamfélagið að horfa upp á þessa atburði ár eftir ár. Saklausir borgarar beggja aðila hafa orðið fyrir miklum áföllum. Ekki verður séð fyrir endann á því. Það verður að ætlast til þess að leiðtogar þessara ríkja axli þá ábyrgð að greiða fyrir friðarferlinu og fylgja Vegvísinum skilyrðislaust. Ljóst er að aldrei mun gróa um heilt ef ofbeldið heldur svona áfram.