Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:47:10 (4384)

2004-02-19 10:47:10# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Alþjóðasamfélagið ber mikla ábyrgð í Palestínu en er samt óskiljanlega ráðþrota. Íslenskir sjálfboðaliðar sem farið hafa til starfa í Palestínu spyrja allir sömu spurninganna við heimkomuna: Af hverju er ekkert aðhafst þegar svona hræðilegir og ólöglegir atburðir eiga sér stað? Ályktanir eru samþykktar á alþjóðavettvangi en allt situr fast og þjóðin kvelst.

Ísland hefur lýst stuðningi við að Palestína verði lífvænlegt fullvalda ríki. Eftir Óslóarsamkomulagið 1993 var 90 millj. kr. veitt á nokkrum árum til uppbyggingar. Síðan ekki söguna meir. Eftir heimsókn Mustafa Barghouthi hingað árið 2001 náði félagið Ísland -- Palestína að safna liðlega 4 millj. kr. fyrir sameinuðu læknahjálparnefndina. Þar af kom hálf milljón frá íslenska ríkinu.

Í haust var leitað til fjárln. um framlag upp á 4 millj. 725 þús. kr. fyrir rekstri á einni færanlegri heilsugæslustöð. Þær eru stórt hagsmunamál sem Mustafa Barghouthi kynnti ráðamönnum hér í heimsókn sinni árið 2001, og hitti hann m.a. hæstv. utanrrh. og gerði þessar færanlegu heilsugæslustöðvar að meginmáli. En þetta brýna framlag fékkst ekki.

Eigum við ekki að taka okkur saman í andlitinu og styðja þetta mannúðarmál sem er ein besta aðstoðin við heimilin í þessu hrjáða landi og við lítil börn sem vaxa úr grasi við ómannúðlegar og óbærilegar aðstæður?