Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:55:19 (4388)

2004-02-19 10:55:19# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), LMR
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Eftir Óslóarsamningana fyrir tíu árum horfðum við fram á veginn. Ég fékk þá tækifæri til að heimsækja og ræða við helstu talsmenn beggja þjóðarbrota og ríkti bjartsýni deiluaðila. Þó voru aðeins tvær vikur liðnar frá hræðilegri sprengingu í Hebron, sameiginlegum bænastað múslima og gyðinga. Rabin, þáverandi utanríkisráðherra, og Husseini, einn nánasti vinur Arafats, lýstu yfir mikilli sáttfýsi. Báðir voru bjartsýnir, en engar sáttatilraunir hafa árangur borið.

Þeir sem stóðu að Óslóarsamningnum hafa misst völdin og öfgamenn á báða bóga tekið við. Það hryggir mig að einmitt í samtölum við þessa öfgahópa fyrir áratug bað ég þess að þeir kæmust aldrei til valda en nú er samt svo komið. Palestínumenn hafa notað ýmis örþrifaráð og þau er með engu móti unnt að réttlæta, fæst þeirra. Sprengjutilræði sem bitna aðallega á almenningi verða ávallt hryðjuverk. Harðar mótaðgerðir Ísraelsmanna er heldur ekki unnt að verja. Öfgastefna beggja deiluaðila viðheldur skelfingaróöld.

Sem yfirburðaþjóð fjárhags- og hernaðarlega hafa gyðingar nýtt sér aðstöðu sína og snúið Palestínumenn upp að vegg, vegg sem er jafnvel enn harðari en aðrir svipaðs eðlis, múr sem að sögn er til varnar sprengjutilræðum. Reyndin kennir að slíkt eykur enn á þá skálmöld sem ríkir. Ung kynslóð Palestínu og Ísraels þekkir ekki annað en heift og hatur, er mötuð í fjölmiðlum og ekki síður í uppeldi og námi. Báðir deiluaðilar eru því heilaþvegnir á viðkvæmum aldri. Það á sinn þátt í ungum aldri flestra sjálfsmorðingja í sprengjutilræðum sem standast illa öflugan áróður. Það getur ekki verið tilviljun hversu ungar sjálfsmorðssveitir Palestínumanna eru og hversu hátt hlutfall barna og ungmenna er í mannfalli á báða bóga. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Þjóðarleiðtogar eiga að vera fyrirmyndir með umburðarlyndi, gagnkvæma virðingu og skilning og græða fremur en ýfa sár sem kunna að vera meðal þegna þeirra.