Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:59:58 (4390)

2004-02-19 10:59:58# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Svo lengi sem ég man eftir hafa verið fréttir í sjónvarpinu af átökum í Miðausturlöndum. Nú sem fyrr einkennist stjórnmálaþróunin þar af átökum og ófriði. Ekki sér fyrir endann á þeim deilum enda ríkir algert vantraust milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Meðan svo er er því miður borin von að friðarhorfur aukist. Afstaða Íslands hefur komið skýrt fram en við höfum fordæmt ofbeldisverk beggja aðila og tekið undir kröfur þess efnis að báðir aðilar semji um vopnahlé og hefji friðarviðræður. Ísland hefur beitt sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og studdi ályktun allsherjarþingsins í haust þar sem bygging múrsins svonefnda er fordæmd og Ísraelsmönnum er skipað að hætta við framkvæmdirnar.

Þessi múr sem Ísraelsmenn eru að reisa á landi Palestínumanna getur orðið allt að 700 km langur og veldur bygging hans miklum áhyggjum. Ég var viðstödd fund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í haust á allsherjarþinginu þar sem fram fór umræða um byggingu múrsins. Sérstök tilfinning fylgdi því að upplifa beint þá heift sem ríkir á milli deiluaðila og hafði ég mikla samúð með málstað Palestínumanna, enda er þessi framkvæmd liður í því að troða á mannréttindum og ýtir hún undir frekara ofbeldi og hryðjuverk.

Herra forseti. Málið lítur því miður ekki vel út en maður verður að vona að menn átti sig á því að lausnin í þessu máli getur hvorki orðið hernaðarleg né lagaleg heldur þarf hún að vera pólitísk og í samræmi við ályktanir öryggisráðsins.