Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:35:37 (4403)

2004-02-19 11:35:37# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði í fyrri umræðu um byggingu múrsins að eins og kom fram í ræðu minni hefur afstaða Íslands komið fram með skýrum hætti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í samskiptum við Evrópusambandið og í samskiptum við Norðurlöndin. Hún hefur því komið fram með beinum og skýrum hætti.

Að því er varðar hugsanlegt friðargæslulið á þessu svæði er rétt að hafa það í huga að friðarsamningar voru gerðir á sínum tíma milli Egyptalands og Ísraels, milli Jórdaníu og Ísraels, og þeir hafa haldið. Þessir friðarsamningar hafa því sýnt að það er hægt að gera samninga um frið á þessu svæði.

Það er líka svo að alþjóðlegt friðargæslulið hefur jafnframt komið inn á svæðið. Þannig er lið Sameinuðu þjóðanna í Gólanhæðum við landamæri Sýrlands, en eins og vitað er hafa Hizbollah-samtökin gert árásir inn í Ísrael þar á því svæði. Það er líka fámennt friðargæslulið á Sínaískaganum. Það eru því fordæmi fyrir friðargæsluliði á þessu svæði.

Ég á hins vegar von á því að ekki sé raunhæft að þarna fari inn alþjóðlegt friðargæslulið nema sem liður í því að koma Vegvísinum til framkvæmda og gæta lögbundinna landamæra, eins og hér hefur komið fram, milli Palestínu og Ísraels og gæta þess að þar ríki friður. Ég hef þá sannfæringu að það muni ekki vera hægt að koma á þeim friði í reynd nema alþjóðalið sé á svæðinu. Ísraelsmenn hafa hins vegar verið andvígir því fram að þessu. En það er athyglisvert að gamalreyndur stjórnmálamaður eins og Shimon Peres skuli nú gera það að tillögu sinni að Evrópa opni arma sína fyrir Ísrael og Palestínu og taki upp viðræður um það að þessi ríki gangi annars vegar í Evrópusambandið og hins vegar í Atlantshafsbandalagið. Þar er hann að vísa til Kýpurdeilunnar en Kýpurdeilan er trúlega að leysast, ekki síst vegna þrýstings sem hefur myndast vegna inngöngu Kýpur í Evrópusambandið.

Nú fer fram víðtæk umræða um það í aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins, sem verður haldinn í Istanbúl í vor, hvert eigi að vera hlutverk Atlantshafsbandalagsins í Miðausturlöndum, og það er mjög mikilvæg og áhugaverð umræða. Inn í hana dregst hlutverk Atlantshafsbandalagsins ekki aðeins hugsanlega í Írak heldur jafnframt hugsanlega á þessu svæði og hlutdeild bandalagsins í því að koma á friði og gæta friðar á þessu svæði.

Það liggur alveg fyrir að þessi deila og lausn hennar er lykill að framförum í arabaríkjunum. Ef ég man rétt lifir fimmti hver íbúi í Miðausturlöndum á minna en 2 dollurum á dag og sjöundi hver íbúi í Miðausturlöndum er atvinnulaus, og það er mikil hnignun efnahagslífs á þessu svæði. Það er ekki rétt mynd sem fólk fær af ástandi í Miðausturlöndum með því að álíta að þar búi eingöngu ríkir olíufurstar. Það er öðru nær. Þar ríkir mikið hnignunarástand og það ástand er í sjálfu sér mjög hættulegt friði á svæðinu og hættulegt friði í heiminum. Í huga þeirra sem búa í arabaríkjunum er þetta mál lykillinn að því að framfarir geti hafist á nýjan leik, það er ekki áætlanir um uppbyggingu, það er ekki efnahagsaðstoð, heldur lausn Palestínumálsins. Þannig er það í öllum skoðanakönnunum.

Það er því alveg sama hvernig á þetta er litið að lykill að frekari framþróun og lýðræðisþróun á þessu svæði er lausn þessa máls, fyrir utan það að að sjálfsögðu er mikilvægt að lýðræðisþróunin takist vel í Írak og klerkaveldið í Íran missi þau hörðu tök sem það hefur og lýðræðisöflin í Íran nái fótfestu, sem er nauðsynlegt til að hrinda af stað umbótum á því svæði. Það er alveg ljóst að ef þarna tekst vel til þá mun það hafa gífurleg áhrif í öllum Miðausturlöndum og er raunverulega það eina sem getur stuðlað að langtímafriði og þróun þessa svæðis því að langtímafriður og efnahagsleg þróun svæðisins mun ekki eiga sér stað nema með lýðræðisþróun og efnahagslegri uppbyggingu.