Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:44:42 (4405)

2004-02-19 11:44:42# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í málum sem þessu hefur skapast sú venja og það hefur þótt nægilegt að afstaða okkar komi fram með skýrum hætti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það sé í sjálfu sér ekki til neins að vera að ítreka þá afstöðu með öðrum hætti. Þessi afstaða er skýr. Það vill svo til að málefni þessa svæðis eru iðulega til umræðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það má því segja að það sé óvenjulegt við þetta mál að þar hefur Ísland ávallt tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Að því er varðar samskipti við Ísrael og Palestínu vil ég minna á það að ég sem utanríkisráðherra fór í heimsókn til Ísraels og Palestínu um mánaðamótin maí/júni 2002. Þá fóru fram viðræður við alla helstu forustumenn Ísraelsríkis, þar á meðal forsætisráðherrann, forsetann, utanríkisráðherrann og marga aðra, og jafnframt Yasser Arafat, forseta Palestínu, og fulltrúa stjórnar Palestínu á því svæði, og þetta liggur ítarlega fyrir. Þar var m.a. komið á framfæri ályktunum Alþingis um þessi mál.