Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:46:16 (4406)

2004-02-19 11:46:16# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hæstv. utanrrh. þannig að ekki hafi sem sagt verið send sjálfstæð eða sérstök orðsending með mótmælum, eða afhent ísraelskum stjórnvöldum, og það kann vel að vera að það sé í samræmi við hinar diplómatísku hefðir. Ég hefði þó haldið að fordæmi væru fyrir því og það væri í raun og veru venjan að kalla a.m.k. sendiherra á teppið og lesa honum pistilinn við aðstæður af þessu tagi. Annað eins hefur verið gert. Ég minnist þess þegar hér var á dögum og við störf síðasti sendiherra Sovétríkjanna sálugu, Krasavín nokkur, og það var óróleiki mikill yfir framferði Sovétmanna í Eystrasaltsríkjunum í aðdraganda þess að þau urðu sjálfstæð. Þá var hann nánast daglegur gestur á teppinu í utanrrn. þar sem hann var skammaður út af framgöngu Sovétmanna þarna.

Ísraelski sendiherrann hlýtur að eiga hér leið um af og til, sá sem fer með Ísland, og maður hefði þá a.m.k. átt von á því að það yrði opinbert að honum hafi verið afhent með formlegum hætti mótmæli eða honum lesin afstaða Íslands í þessum efnum. Út af fyrir sig er það þó kannski framkvæmdaatriði og skiptir ekki öllu máli.

Ég vil aðeins aftur víkja að deilunni sjálfri og mikilvægi þess að hún leysist vegna framþróunar í þessum heimshluta, sem hæstv. ráðherra og nefndi. Undir það tek ég. Því miður eru nýlegar tölur komnar fram sem ég las á dögunum um þróun efnahagsmála í arabaheiminum. Hún er neikvæð, og lífskjör fara þar núna versnandi, því miður, víðast hvar nema í fáeinum smáríkjum svo ekki sé talað um að í Palestínu er auðvitað að verða algert efnahagslegt hrun. Atvinnuleysi er þar 50--70% á sumum svæðum fyrir utan milljónirnar sem lifa í flóttamannabúðum þar sem önnur og þriðja kynslóðin eru að alast upp. Þar er ekkert annað fram undan en að þjóðin í heild sinni nánast verði komin á alþjóðlegt framfæri ef ekki tekst að vinda bráðan bug að lausn deilunnar.