Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:50:44 (4408)

2004-02-19 11:50:44# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessar umræður hafa m.a. spunnist vegna hugsanlegrar þátttöku Atlantshafsbandalagsins í uppbyggingu og friðargæslu í Írak. Eins og vitað er eru sumar þjóðir Atlantshafsbandalagsins þar á vettvangi og það eru miklar líkur til þess að Atlantshafsbandalagið í heild sinni yfirtaki hlutverk þessara sveita, en að sjálfsögðu verða það þá sveitir sem eru byggðar upp frá nokkrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Þjóðverjar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki standa í vegi fyrir því að slíkt geti gerst, en munu ekki senda sveitir sjálfir. Jafnframt hefur komið inn í umræðuna hlutverk Atlantshafsbandalagsins almennt að því er varðar Miðausturlönd og hugsanleg aðkoma Atlantshafsbandalagsins að þeim aðstæðum sem eru á þessu svæði.

Það er mjög erfitt að segja fyrir um hvað geti gerst í því. Um það þarf að nást samstaða, það þarf að vera ljóst að það lið sé a.m.k. bærilega velkomið inn á svæðið. Ég vil ekki útiloka að það geti gerst. Hins vegar er ljóst að Íslendingar eru eina þjóðin í Atlantshafsbandalaginu sem ekki hefur hersveitir en við höfum ávallt verið tilbúin til að taka þátt í slíkri friðargæslu með fámennu liði lögreglufólks, hjúkrunarfólks og annarra aðila, og við mundum að sjálfsögðu ekki skorast undan í þeim efnum frekar en endranær.