Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:55:05 (4410)

2004-02-19 11:55:05# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú stefna Atlantshafsbandalagsins að fara með sveitir utan hefðbundinna svæða, eða eins og sagt er á ensku ,,out of area``, var staðfest á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna hér í Reykjavík, og við höfum stutt þá stefnu. Þetta á við um Afganistan, svo dæmi sé tekið, og núna 1. júní munu Íslendingar taka að sér mjög mikilvægt hlutverk í Afganistan. Við höfum stutt þá viðleitni jafnframt í Miðausturlöndum, í Írak, og við munum halda áfram að styðja hana hvar sem Atlantshafsbandalagið getur hjálpað til við að koma á friði.

Þetta er að sjálfsögðu vandmeðfarið, eins og hv. þm. veit. Við höfum stutt þessa stefnu og munum halda áfram að styðja hana. Ef Atlantshafsbandalagið getur stuðlað að friði milli Ísraelsmanna og Palestínumanna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að styðja þá viðleitni með sama hætti og á öðrum svæðum sem tengjast þessu viðkvæma landsvæði.