Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:22:56 (4416)

2004-02-19 12:22:56# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:22]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að gera athugasemd við ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals varðandi tvo þætti, í fyrsta lagi varðandi eftirlitsmennina. Með frv. er ekki verið að hætta við það kerfi að eftirlitsmenn séu á staðnum. Það er einungis verið að fella úr lögunum að það eigi að ráða eftirlitsmenn til að sjá um eftirlitið. Í lögunum kemur fram að Umhverfisstofnun á að hafa eftirlit með þessum málum og það er óþarfi að kveða á um sérstaka eftirlitsmenn um þennan eina þátt af öllum þeim þáttum sem stofnunin annast. Það verður áfram sama kerfi og hefur verið en þetta verður ekki í lögunum þar sem það er óþarfi.

Í annan stað vildi ég líka bregðast við því sem hér var sagt um mink og ref og fjárveitingar sem fara til þeirra mála. Við höfum sett á fjárlögum ákveðnar upphæðir sem við höfum síðan getað notað til að endurgreiða sveitarfélögunum refa- og minkaveiðar. Menn hafa farið yfir þessar fjárveitingar á hverju einasta ári upp á síðkastið og við höfum fengið í fjáraukalögum viðbótarfjármagn. Nú verður það ekki þannig, fjárlögin eru það eina sem við getum stuðst við.

Fjárln. var kunnugt um þessa stöðu en hækkaði ekki fjármagnið í þessi viðfangsefni þannig að við búum við það. En það er ósköp eðlilegt þegar búið er að samþykkja fjárlög að við viljum halda okkur innan þeirra, að sjálfsögðu. Við höfum sent þau skilaboð til sveitarfélaganna að þau verði að haga endurgreiðslum þannig að það passi við þá fjárhæð sem er í fjárlögum.

Hins vegar höfum við sett upp bæði minkanefnd og refanefnd, m.a. út af þeirri stöðu að við vissum að þetta fjármagn væri ekki í hendi, til þess að athuga hvort hægt sé að nýta fjármagnið betur eða skapa forsendur til að auka það. Ég bind ákveðnar vonir við það í þessu nefndarstarfi. Í nefndinni eru fulltrúar allra hagsmunaaðila þannig að hv. þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af stofnunum að þessu leyti.