Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:49:47 (4421)

2004-02-19 12:49:47# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál.

Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín. Í fyrsta lagi frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um b-lið 5. gr., sem við köllum í ráðuneytinu ,,kanínuákvæðið``, þar sem hann gerði að umtalsefni að þar væri tilgreint að dýrin ættu að vera komin hingað af mannavöldum ef greinin næði yfir þær aðferðir sem mætti nota til að hemja vöxt í stofni og halda stofni niðri. Þá vil ég benda á að það er alvanalegt í alþjóðlegum samningum að taka svo til orða eða hafa slíkt ákvæði varðandi það hvernig dýr ferðast og koma inn í náttúruna, m.a. af mannavöldum, en það er sjálfsagt að nefndin skoði þetta betur í umfjöllun málsins.

Um arnaskrána vil ég segja að samkvæmt mínum upplýsingum er hún tilbúin og nær yfir landið allt og yfir landið frá upphafi eða eins langt aftur og elstu heimildir sýna. Þessi skrá er því til.

Varðandi 3. gr. vil ég segja að það sem breytist og þingmaðurinn áttaði sig kannski ekki alveg á, enda kemur það kannski ekki nógu skýrt fram í greinargerðinni, er að í dag stendur í 3. gr. laganna, með leyfi virðulegs forseta:

,,Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu vera umhverfisráðherra til ráðgjafar og gera tillögur varðandi vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eftir því sem tilefni er til.``

Um þetta ákvæði má segja að ef menn lesa það eitt og sér geta menn túlkað það sem svo að báðar þessar stofnanir eigi að gera það sama, ef maður les þetta einangrað og er ekki að lesa lögin sem gilda um þessar stofnanir að öðru leyti. Það var því talin ástæða til að bæta við þessu nýja ákvæði sem er í 3. gr. frv. þar sem kemur alveg skýrt fram að það er Náttúrufræðistofnun Íslands sem sér um rannsóknirnar og gerir tillögur til ráðherra um hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, þ.e. sér um þann vísindalega bakgrunn. En síðan er það Umhverfisstofnun sem stjórnsýslustofnun, sem aðstoðar við að útfæra veiðarnar ef þær mega fara fram. Þetta er skýringin.

Fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni varðandi 500 metrana, hvort það sé of vítt svæði sem þarna er verið að verja fyrir ágangi manna á varptíma. Slíkur metrafjöldi er alla vega tilgreindur víða erlendis og virðist ganga þar. Eins og kemur fram í greinargerðinni sýna ernir greinilega styggð í nokkur hundruð metra fjarlægð á varptíma þannig að mönnum á að vera ljóst, ef þeir hafa vakandi auga með náttúrunni, að arnarhreiður sé í grennd. Nefndin getur líka skoðað þetta sérstaklega í umfjöllun málsins en alla vega tel ég að þetta geti alveg gengið upp. Ég á ekki von á að það komi oft upp á að menn fari óvart inn á þennan 500 m radíus á varptíma. Þetta er útbúið svona af okkar hálfu en ég tel eðlilegt að menn skoði það í nefnd.

Að öðru leyti vil ég gjarnan þakka fyrir umræðuna.