Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 13:30:55 (4426)

2004-02-19 13:30:55# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[13:30]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Allir fremstu mannréttindasérfræðingar heimsins hafa verið einhuga um að aðskilnaðarmúrinn sé hrottaleg aðför að mannréttindum. Það þarf ekki sérfræðinga til að komast að þeirri niðurstöðu. Gegn þessari skelfingu leggjast nánast allar þjóðir heimsins nema ein, ein stórþjóð, Bandaríkin. Bandaríkin leggjast gegn múrnum meira í orði en á borði. Múrinn er ávísun á áframhaldandi mannréttindabrot og þjóðarmorð.

Það er óvefengjanleg staðreynd að Ísraelsríki væri ekki fjárhagslega kleift að reisa múrinn án fjárstuðnings frá Bandaríkjunum, stuðnings sem nemur milljörðum dollara á ári hverju og hefur verið aukinn á seinni árum. Bandaríkjunum er í lófa lagið að koma í veg fyrir byggingu aðskilnaðarmúrsins og hafa í raun í höndunum lykil að lausn þessara deilumála að mjög mörgu leyti.

Það eina sem þarf til, hvað múrinn varðar, er að Bandaríkin skilyrði þennan milljarða dollara fjárstuðning við að Ísraelsríki hætti við áform sín. Vilji Bandaríkjamanna virðist ekki standa til þessa ef marka má aukin framlög núna á síðasta ári og árinu þar á undan til Ísraelsríkis. Ég hvet ríkisstjórn Íslands, bæði sem slíka og á alþjóðavettvangi, til að leggja áherslu á að spjótum verði beitt gegn Bush-stjórninni og gegn Bandaríkjunum, að þeir skilyrði þessa fjárhagsaðstoð alfarið við að múrinn verði ekki reistur. Ríkisstjórn Íslands má ekki láta það trufla sig í mótmælum sínum þótt hún sæki fast á áframhaldandi hersetu á Íslandi, m.a. af fjárhagslegum ástæðum.