Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 13:44:12 (4429)

2004-02-19 13:44:12# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 22. maí og 4. júní 2003, og samkomulagi milli Íslands og Noregs um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gert var í Ósló 26. júní 2003.

Frá árinu 1996 hafa Ísland, Færeyjar, Noregur, Rússland og ESB gert árlega fimmhliða samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ekki tókst að ná slíku samkomulagi um veiðar á árinu 2003. Í ljósi þess freistuðu aðilar þess að gera tvíhliða samninga sín á milli um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á því ári. Til grundvallar þeim tvíhliða samningum sem gerðir voru lá að leyfilegur heildarafli úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 væri 710.000 lestir, auk 1.500 lesta sem koma í hlut annarra ríkja samkvæmt nánari ákvörðun Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, en undanfarin tvö ár hafði leyfilegi heildaraflinn verið 850.000 lestir. Af Íslands hálfu voru gerðir tvíhliða samningar við Færeyjar og Noreg.

Samkvæmt samningnum milli Íslands og Færeyja var íslenskum skipum heimilað að veiða allan sinn aflahlut úr norsk-íslenska síldarstofninum, 110.334 lestir, innan fiskveiðilögsögu Færeyja á árinu 2003. Færeyskum skipum var sömuleiðis heimilað að veiða sinn aflahlut, 38.774 lestir, úr stofninum innan efnahagslögsögu Íslands, en þar sem Færeyjar höfðu framselt 9.251 lest af aflahlut sínum var raunveruleg heimild þeirra til veiða í íslenskri lögsögu 29.523 lestir. Samningurinn gerði ráð fyrir að aflahlutdeild Íslands væri óbreytt frá árinu 2002, þ.e. 15,54%.

Í samkomulaginu milli Íslands og Noregs komu aðilar sér saman um að hlutur Íslands skyldi vera 110.334 lestir sem var eins og áður segir óbreytt hlutfall frá árinu 2002. Jafnframt féllst Ísland á að láta 7.100 lestir í skiptum fyrir aukinn aðgang að efnahagslögsögu Noregs. Íslenskum skipum var þá heimilt að veiða þar 12.000 lestir af aflahlut Íslands, en á árinu 2002 nam sú heimild 5.900 lestum. Íslensk skip nutu sem fyrr ótakmarkaðs aðgangs að lögsögunni við Jan Mayen. Samkomulagið kvað á um að aflahlutur Noregs skyldi vera 433.800 lestir og að norskum skipum væri heimilt að veiða 84.153 lestir af þeim hlut í efnahagslögsögu Íslands á árinu 2003.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.