Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 13:54:39 (4431)

2004-02-19 13:54:39# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir það með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að samningshorfur að því er varðar norsk-íslenska síldarstofninn eru slæmar. Málið er í hnút. Ég hafði gert mér vonir um að hægt yrði að halda málinu áfram á svipuðum grundvelli og samdist um í fyrra. En í aðdraganda þess samnings komu fram mjög ákveðnar kröfur frá Noregi um aukna hlutdeild þeirra í veiðunum. Ef ég man rétt er hlutur Norðmanna um 57% af heildarmagninu en þeir hafa verið með hugmyndir um að stórauka hlutdeild sína. Við höfum ekki getað fallist á það. En það má segja að við höfum reynt að greiða fyrir samningum á síðasta ári með því að afsala okkur lítils háttar magni gegn því að fá auknar heimildir í norsku lögsögunni sem áttu að geta aukið hagkvæmni veiðanna og það verðmæti sem kæmi út úr veiðunum. Sá samningur var bærilega ásættanlegur fyrir okkur.

Síðasti samningafundur endaði hins vegar þannig að upp úr slitnaði. Það er ætlun Norðmanna að ná heildarsamningi milli allra þjóðanna. Það væri vissulega æskilegt að slíkur samningur næðist. Að mínu mati hefði verið eðlilegast að byggja á þeim grunni sem lagður var þegar samningar tókust fyrst um þessar veiðar. Ég tel að sá samningur hafi gagnast öllum og mikilvægt væri fyrir allar þjóðirnar að virða hann meðan engar stórkostlegar breytingar verða á göngumunstri síldarinnar.

Íslendingum er að mínu mati mikilvægast að halda áfram að byggja upp þennan stofn og halda veiðum í lágmarki þannig að stofninn geti byggst upp. Þetta var stærsti fiskstofn á Norður-Atlantshafi, var talinn um 10 millj. tonna. Það vita allir hversu mikið efnahagslegt áfall það var fyrir Íslendinga að missa þessar veiðar. Það hafði gífurleg áhrif á byggðina í landinu. Okkur er því mikil nauðsyn að það takist farsællega til um uppbyggingu síldarstofnsins.

Ég þekki ekki til brottkasts í þessum veiðum og þeirra mynda sem hafa verið sýndar í norska sjónvarpinu. Ég hef heyrt af því í fréttum en ekki séð þessar myndir. Sé þar um að ræða íslensk skip þá fordæmi ég það eins og allt annað brottkast. Ég tel að það sé óafsakanlegur gerningur, sé það vísvitandi gert. Hitt er svo annað mál að við vitum að vinnsluskipin kasta frá sér úrgangi. Það er vitað mál í nótaveiðum að við vissar aðstæður, þegar skip hafa fengið fullfermi og geta ekki látið önnur skip hafa afganginn úr nótinni, hafa menn oft þurft að sleppa niður. Það hefur líka þurft að sleppa niður í vondum veðrum. Allir sem hafa stundað slíkar veiðar vita það og hafa upplifað það. Ég tel að það sé allt annað mál en það sem hér er verið að lýsa.

Það er því miður þekkt að í vissum tilvikum, t.d. þegar Íslendingar stunduðu veiðar í Smugunni á tímabili, óheftar veiðar, þá fylgdi því brottkast sem var óafsakanlegt. Brottkast hefur því miður verið stundað á Íslandsmiðum allt of lengi.

Ég hef þá trú að dregið hafi verulega úr því. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson þekkir vel að á tímabili, þegar ég þekkti til í sjávarútvegsráðuneytinu, kom smáfiskur aldrei um borð í hluta af togaraflotanum að því er virtist. Þó vissum við að hann hlyti að hafa komið þar um borð.

Þetta er vandamál sem við verðum að berjast gegn. Ég vona sannarlega að hér sé ekki um íslenskt skip að ræða. Ef svo er ber að sjálfsögðu að taka það föstum tökum.