Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:00:14 (4432)

2004-02-19 14:00:14# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæta ræðu og styð hann svo sannarlega í þessum samningum sem við eigum í við Norðmenn. Þetta eru erfiðir samningar, Norðmenn eru harðir í horn að taka og það er oft erfitt að ná samkomulagi við þá í fiskveiðimálum en ég vona svo sannarlega að íslensk stjórnvöld sitji fast við sinn keip í þessum síldarsamningum og semji við Norðmenn af fullri einurð. Við eigum skilyrðislaust mikinn rétt til að stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem svo er kallaður. Þessi stofn virðist vera í mjög góðu ástandi eins og er. Samkvæmt fréttum í þessari viku frá Noregi eru veiðar á norsk-íslensku síldinni, sem nú er að ganga til hrygningar, bannaðar að degi til vegna þess að torfurnar eru svo stórar að næturnar rifna, bátarnir ráða ekki við veiðarnar. Það er bara leyft að veiða á nóttunni þegar síldin dreifir sér. Það virðist því vera mikið af síld og hlýnandi sjór hér við Ísland eykur að sjálfsögðu vonir um að þessi mikli fiskstofn, þessi mikla auðlind, muni leita aftur á sín fornu sumarmið, þ.e. á miðin fyrir utan Norðurland. Ég vona svo sannarlega að sú verði raunin. Við Íslendingar, eins og ég sagði áðan og ítreka það enn, eigum að standa gegn Norðmönnum í þessum samningaviðræðum af fullri hörku.

Fyrst hæstv. utanrrh. er hér í salnum langar mig svolítið til að minnast á einn þátt utanríkismála, pólitíkina varðandi hið svokallaða fiskverndarsvæði Norðmanna við Svalbarða. Þessi norsk-íslenska síld er þar stóran hluta úr ári og íslensk skip hafa stundað þar veiðar, verið undirlögð norskum reglum, fiskveiðisamningum við Norðmenn, og mér finnst rétt að nota tækifærið núna til að spyrja utanrrh. hvort ekki sé ástæða til að þetta Svalbarðamál verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar og jafnvel að við Íslendingar reynum að leita réttar okkar á þessu mikla hafsvæði. Það er gersamlega ótækt að mínu mati að Norðmenn skuli einhliða ákvarða sér þann rétt sem þeir hafa tekið á þessu Svalbarðasvæði, svokölluðu fiskverndarsvæði. Þeir segja að þar gildi ákveðin lög, ákveðnar reglur, ákveðnir kvótar. Þeir meina okkur t.d. að stunda þar rækjuveiðar nema hungurlús sem þeir skammta eins og skít úr hnefa. Við fáum ekki að veiða þarna síld, grálúðu eða þorsk nema eftir samkomulagi við Norðmenn. Á meðan sjáum við aðrar þjóðir, t.d. Rússa, fara nánast öllu sínu fram eins og þeim sýnist á þessu svæði. Við Íslendingar virðumst gersamlega lúffa fyrir Norðmönnum.

Ég tel fulla ástæðu til þess að fara í hart við Norðmenn út af Svalbarðasvæðinu. Málið er nefnilega það, hæstv. forseti, að Norðmenn á Svalbarðasvæðinu eru ekkert annað en pappatígrisdýr. Þegar á reynir þora þeir ekki að fara í hart.

Hér var áðan talað um myndir um brottkast sem sýndar voru í norska sjónvarpinu. Ég hef séð þessar myndir og samkvæmt heimildum mínum frá Noregi, sem ég tel mjög öruggar, voru þessar myndir teknar um borð í íslensku fiskiskipi sl. sumar. Á þessum myndum sjáum við síldarflokkara sem er að vinna á fullri ferð og öll síld, að manni virðist af myndunum að dæma, undir 20 sentimetra lengd fellur niður á færiband undir þessum flokkara, færibandið liggur í slöngubarka og slöngubarkinn liggur um allt skip og upp á efsta dekk og þar fyrir borð. Norskur strandgæslumaður, skipherra í norsku strandgæslunni, lýsir undir fullu nafni myndunum í umræddum þætti og útskýrir hvað við sjáum á þeim. Norsku strandgæslumennirnir hafa filmað þetta allt saman. Þeir byrja á því að filma flokkarann, síðan síldina sem fellur niður á færibandið og fylgja barkanum alveg upp á dekk. Það kemur greinilega fram í þessum norska sjónvarpsþætti, og norski skipherrann segir það, að þetta er íslenskt skip. Mér hefur verið sagt hvaða skip þetta er en ég ætla ekki að segja það hér úr þessum stól. Það mun koma í ljós.

Þetta gerðist á Svalbarðasvæðinu. Í Noregi eru svona afbrot, þ.e. kerfisbundið brottkast á fiski, m.a.s. vélrænt brottkast, litið gríðarlega alvarlegum augum. Menn hafa verið teknir fyrir þetta og dæmdir til mjög hárra sekta. En hvað gerðist í þessu tilfelli? Jú, skipinu var sleppt. Samkvæmt mínum heimildum fékk skipið eingöngu aðvörun frá norskum stjórnvöldum, það var ekki dregið til hafnar. Vegna hvers? Jú, það var að veiðum á Svalbarðasvæðinu. Þrátt fyrir að strandgæslan hefði tekið mennina þarna, staðið þá að verki, filmað atburðinn, var þeim sleppt. Norsk stjórnvöld treystu sér ekki til að taka skipið af því að þetta var á Svalbarðasvæðinu. Norðmenn sjálfir, norsk stjórnvöld, álíta réttarstöðu sína á Svalbarðasvæðinu svo veika að jafnvel þó að þeir verði vitni að alvarlegum afbrotum, eins og í þessu tilfelli, alvarlegum umhverfisglæpum --- það er ekki hægt að kalla það neitt annað en glæp --- láta þeir skipin fara með aðvörun.

Mér finnst þetta sýna mjög skýrt í raun og veru hversu veik staða Norðmanna á Svalbarðasvæðinu er. Ég tel að við Íslendingar ættum hreinlega að fara í hart við Norðmenn á Svalbarðasvæðinu, láta á þessi mál reyna, jafnvel fyrir alþjóðadómstólum, og koma málum í þann farveg að fiskveiðum á Svalbarðasvæðinu í framtíðinni, þessu gríðarlega stóra hafsvæði hér norður af Íslandi, verði í framtíðinni stýrt í gegnum alþjóðastofnun eins og t.d. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina NEAFC. Að sjálfsögðu verði þar farið að lögum og reglum og að sjálfsögðu verði alls ekki liðið, herra forseti, að slíkir glæpir viðgangist eins og við sjáum í þessum norska þætti.

Ég hvet ykkur til að horfa á þessar myndir. Það er hægt að nálgast þær í gegnum internetið. Þetta eru ljótar myndir og það er mjög sterkt að horfa á þær um leið og maður hlustar á skipherra í hinum konunglega norska sjóher, skipherra í norsku strandgæslunni, lýsa því sem viðgekkst og segja: Þetta er íslenskt skip sem við fórum um borð í í fyrrasumar. Ástæðan fyrir því að við náðum þessum myndum er sú að við komum svo snögglega um borð að áhöfnin um borð í hinu íslenska skipi náði ekki að fjarlægja útbúnaðinn. Það var hreinlega það mikið verk, þeir náðu ekki að fjarlægja útbúnaðinn og við stóðum þá að verki.

Þessi norski skipherra segir: Það virkar eins og þessum íslensku sjómönnum sé gersamlega, fullkomlega eðlilegt að vinna með þessum hætti. Þeir eru algerlega ónæmir fyrir því sem þeir eru að gera.

Öll síld undir 20 sentimetrum, eins og ég segi af myndunum að dæma, fer samkvæmt orðum norska skipherrans beint í sjóinn. Til viðbótar er svo afskurðurinn sem mjög sennilega fer í hafið líka. Samkvæmt tölum Fiskistofu er nýtingarstuðull á síld 0,5, þ.e. helmingnum af allri síld sem dregin er um borð í þessi vinnsluskip er dælt aftur í sjóinn, þ.e. hausum, hryggjum og innvolsi. Bara flökin eru hirt og í þessu tilfelli bara stærstu flökin.