Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:16:04 (4434)

2004-02-19 14:16:04# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að andmæla því að engu máli skipti hvaða útgerð á í hlut. Það skiptir nefnilega miklu máli. Það er alveg sjálfsagt mál að það verði gert uppskátt hverjir voru að verki. Ég tel mig vita það og ég reikna með að þær upplýsingar muni koma upp á yfirborðið áður en langt um líður og þessir menn verða að standa ábyrgir gerða sinna.

Það er alveg klárt mál, herra forseti, að svona uppákoma veikir mjög samningsstöðu okkar Íslendinga. Hún rústar trúverðugleika okkar út á við, erlendis, og að sjálfsögðu líka hér heima á Íslandi, trúverðugleika sjávarútvegsins, útgerðarinnar, fiskveiðanna. Ég bjó mörg ár í Noregi og veit hvernig Norðmenn hugsa. Þeir munu í sjálfu sér ekki hafa mikinn áhuga á að semja við menn sem haga sér með þessum hætti, það er alveg ljóst.

Eins og ég sagði áðan kemur fram í þættinum að þetta hafi verið íslenskt skip, og það er norskur skipherra á norsku varðskipi sem tók myndirnar. Hann fullyrðir það og ég sé enga ástæðu til að draga það í efa. Þetta er mjög alvarlegt tilfelli, ekki bara vegna þessarar sóunar, þessa siðferðisbrests og þeirrar ósvífni að menn vogi sér virkilega að haga sér svona, heldur líka fyrir það að þetta gersamlega eyðileggur trúverðugleika okkar, ekki bara í Noregi heldur líka á alþjóðavettvangi. Þessir menn skulu bara gjöra svo vel að standa ábyrgir gerða sinna. Þetta er algerlega ólíðandi.