Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:20:17 (4436)

2004-02-19 14:20:17# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hér með skora á hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnina að hún krefjist þess strax að fá að vita hjá norskum stjórnvöldum hvaða skip var um að ræða. Ég skora líka á íslensk stjórnvöld að sjá til þess að umræddur þáttur verði sýndur í sjónvarpinu hér á landi því að ekkert er jafnáhrifaríkt til að koma í veg fyrir sóun af þessu tagi og að það sé gert opinbert fyrir öllum landslýð og talað um þessi vandamál af fullri einurð og hreinskilni. Það er fyrsta skrefið í átt til þess að gerðar séu einhverjar umbætur sem virka. Það höfum við séð. Eftir að hinar frægu brottkastsmyndir sem ég tók þátt í að útvega á sínum tíma voru sýndar í sjónvarpinu samþykkti hið háa Alþingis reglur sem gerðu það að verkum að sjómönnum varð kleift að koma með aukaafla að landi.

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli þingmannsins á því að hann er í andsvari við hv. 5. þm. Norðaust. en ekki hæstv. ráðherra, ef það hefur farið á milli mála.)