Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:52:48 (4449)

2004-02-19 14:52:48# 130. lþ. 68.7 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nefndarálitinu er sjútvn. sammála um þær breytingar sem hér eru lagðar til á lögum um eldi nytjastofna sjávar.

Það er alveg nauðsynlegt eftir því sem fiskeldi á sjávardýrum, og ég tala ekki um þeim nytjastofnum sem eru í kringum landið, vex fiskur um hrygg að menn velti fyrir sér hvaða afleiðingar það geti haft fyrir þá stofna sem við erum að veiða og nytja í dag.

Við þekkjum það úr öðru fiskeldi og þá á laxfiskum að þar leggja menn talsvert mikið upp úr kynbótum og eru að kynbæta fisk með tilliti til vaxtarhraða, kynþroska o.s.frv. Því hljótum við að velta fyrir okkur þegar við förum að ala t.d. þorskinn í kvíum við landið hvað við ætlum okkur að leyfa fiskeldismönnum að ganga langt í kynbótum á þessum stofni sem er samstofna þeim fiski sem við nýtum hringinn í kringum landið. Hvað með kynbætur með breytingum á erfðaefni? Komum við til með að leyfa þær? Eða komum við til með að leyfa hefðbundnar kynbætur þar sem verið er að kynbæta annaðhvort fyrir vexti eða til að seinka eða flýta kynþroska eftir atvikum? Þetta hljóta að vera atriði sem við veltum fyrir okkur.

Það er alveg ljóst að um leið og eldi hefst á nytjastofni, hvort sem það er þorskur, lúða eða eitthvað annað, og þetta eldi fer fram í kvíum, í sjókvíum í fjörðum í kringum landið, þá mun fiskur örugglega sleppa úr þeim kvíum. Það er sagan með allt fiskeldi í sjókvíum að það er alveg sama hvaða reglur menn eru með og hve varlega menn fara, fiskur mun alltaf sleppa úr þessum kvíum. Og ef búið er að vinna verulega í kynbótum, búið er að vinna verulega í því að breyta einhverjum grunnþáttum hjá þeim stofnum sem verið er að ala og þeir sleppa út í hina villtu náttúru, þá veltum við því fyrir okkur hvaða áhrif það geti haft.

Í raun og veru erum við ekki að fjalla um það hér með þessum breytingum hve langt má ganga í kynbótum eða breytingum á eðliseiginleikum þessara nytjastofna. En ég vildi koma hér upp og leggja þetta inn í umræðuna af því að ég tók ekki þátt í þessu nefndaráliti þar sem ég var fjarverandi á fundum sjútvn. Þetta er eitthvað sem við hljótum í framhaldi af þessu og eftir því sem eldi á nytjastofnum eykst að velta fyrir okkur. Þetta er ekki bara spurning um laxfiskana í sjónum og hvort þeir sleppa úr kvíum og blandist villtum laxi. Um leið og við förum að eiga við þorskinn, um leið og við förum að eiga við lúðuna með tilliti til kynbóta, hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við viljum fá þann fisk þannig kynbættan úr kvíunum og inn á sömu svæði og villti fiskurinn er á.

Við þurfum líka að velta fyrir okkur með hvaða hætti tekin er ákvörðun um að banna. Sjútvrh. kemur til með að hafa heimild til að banna eldi ef talið er að verja þurfi stofna íslenskra sjávardýra gegn óæskilegum áhrifum erfðablöndunar. Við hljótum að velta fyrir okkur hvernig hann tekur þá ákvörðun. Hvað þarf til að sjútvrh. ákveði að banna eldi á þorski vegna þess að eldisfyrirtæki er að stunda kynbætur eða einhverjar þær breytingar á stofninum sem það er með og menn telji að það geti orðið hættulegt hinum villtu stofnum?

Þetta eru að mínu viti eðlilegar áhyggjur vegna þess að við höfum séð það, eins og ég sagði áðan, að í öllu eldi reyna menn að hámarka árangur. Menn reyna að breyta fiskinum með þeim hætti að hann vaxi hraðar, menn reyna að breyta fiskinum með þeim hætti að hann verði jafnvel holdfyllri en annars er í villtri náttúru og menn reyna að hafa áhrif á kynþroska þess fisks sem þeir eru að ala.

Varnaðarorð í framhaldi af vonandi mjög auknu eldi á nytjastofnum: Menn hugsi vel áður en þeir framkvæmi hratt.