Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 15:48:51 (4458)

2004-02-19 15:48:51# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að tala um löggjöf sem veitir launafólki ýmis almenn réttindi, sem þegar á heildina er litið flestir ef ekki allir hljóta að telja vera til hagsbóta. Hæstv. ráðherra segir að hætta sé á því að fólk í hlutastörfum og tímavinnufólk muni verða fyrir kjaraskerðingu ef þetta nær fram að ganga.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að öll samtök launafólks, sem standa og vilja standa vörð um kjör þessa fólks, hafa sameinast í málinu? Telur hann líklegt að samtökin séu að hafa kjör af fólkinu? Nei. Þeir sem hins vegar standa gegn þessum réttindum, að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga fái notið slíkra réttinda, eru atvinnurekendur. Ég er að auglýsa eftir skýringum á því hverju þetta sæti.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að margir fundir voru haldnir en samningar náðust ekki. En hér er kominn forsvarsmaður þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á því að tilskipunin nái fram að ganga þegar aðilar ná ekki saman. Hver er skýringin á því að hann kemur með frv. sem að öllum líkindum mun ekki standast tilskipunina? Hvernig stendur á því að hans mat er þetta? Okkur skortir skýringar á því. Hvers vegna er nálgunin þessi, svo ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra? Hvers vegna förum við ekki þá leið að veita öllu fólki þessi réttindi og gera okkur síðan grein fyrir því ef eitthvað stendur þar í vegi? Hvers vegna þurfum við að undanskilja tiltekna hópa? Þær skýringar koma ekki fram.

Er ekki kominn tími til að leiða þær fram í dagsljósið?