Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:18:29 (4464)

2004-02-19 16:18:29# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vekur athygli á og kemur fram með mjög áhugaverða spurningu: Eigum við að leyfa það aftur að skip séu tekin úr höfnum landsins og þeim sökkt í sjó?

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er vandamál. Hafnir landsins eru að fyllast af skipum, mörgum hverjum sem enginn vill eiga eða erfitt er að rekja hver á. Ég tel að við þurfum að skoða þetta mál alveg fordómalaust. Ég tel að við þurfum að velta fyrir okkur í fullri alvöru hvort þetta geti verið leið til að losna við skipin án þess að við mengum sjóinn sem að sjálfsögðu er grunnforsenda þess að þetta sé gert.

Við höfum öll heyrt fréttir af því að sums staðar þar sem botnvörpungar hafa eyðilagt búsvæði fisks eða svæði þar sem fiskur hefur alist upp eða fjölgað sér hafi menn verið að reyna að sökkva tilbúnum hlutum til að laga til slík svæði og koma í veg fyrir að á þeim sé skarkað meira en góðu hófi gegnir. Þegar ég sat úti í sal og hlustaði á hv. þingmann var ég að velta fyrir mér hvort Hafrannsóknastofnun hefði í raun verið spurð hvort sérfræðingar hennar vildu leggja til að einhver slík svæði hér yrðu endurreist með þeim hætti að tilbúnum hlutum yrði þar sökkt, svo lengi sem þeir menguðu ekki. Gætu öll þau skip sem eru í höfnum landsins núna dugað til á eitt eða tvö tiltekin slík svæði til að endurreisa þar búsvæði fyrir nytjastofna?