Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:20:35 (4465)

2004-02-19 16:20:35# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi spurning sem hv. 10. þm. Suðurk. vekur máls á er mjög áhugaverð. Ég er ekki endanlega í færum til að svara þessu sjálfur en fróðlegt væri að heyra frekari innlegg um málið.

Ég vek hins vegar athygli á tvennu. Í fyrsta lagi er slík staða núna í skelfiskveiðunum í Breiðafirði að þar hefur orðið nýliðunarbrestur og hreinlega dauði í skelinni. Það var mjög áhugavert fyrir okkur þingmenn Norðvest. á sínum tíma og þingmenn sem þá sátu í sjútvn. að heyra yfirferð Hafrannsóknastofnunar um þessi mál. Eitt af því sem þeir veltu mjög mikið fyrir sér var að reyna að búa til aðstæður, misfellur o.fl. í Breiðafirði til að örva nýliðunina í skeljabúskapnum þar. Þetta er auðvitað liður í því sama.

Ég vakti athygli á því að í ýmsum löndum, t.d. í Asíu, gera menn þetta mjög skipulega. Menn líta á það sem verkefni að búa til aðstæður fyrir uppvaxandi fisk. Eftir að ég hafði flutt þetta mál höfðu fjölmargir sjómenn, ekki síst eldri sjómenn, samband við mig, m.a. vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af botninum eins og hann hefur verið meðhöndlaður í okkar miklu togveiðum. Þeir vöktu athygli á því að þarna gæti verið verkefni um að sökkva þessum skipum með skipulegum hætti, auðvitað að því gefnu að við værum búin að hreinsa þau af öllum mengandi efnum og síðan, eins og ég nefni að ég hygg í greinargerðinni, þarf auðvitað að gæta þess að við séum ekki að þvælast fyrir á veiðislóð. Af því gæti skapast hætta. Það væri eðlilegt að þetta væri merkt inn á sjókort og það er kosturinn við að reyna að gera það skipulega.

Það mætti líka hugsa sér að gera þetta á grunnslóð af ástæðum sem ég nefndi áðan. Ég held að þetta sé mjög áhugaverður flötur á málinu þó að það hafi ekki verið beinlínis það sem rak mig áfram til að leggja fram þetta frv.