Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:22:48 (4466)

2004-02-19 16:22:48# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni.

Ég held að hugmyndin um að taka einhver þessara skipa sem liggja í reiðileysi í höfnunum og sökkva þeim á tilteknum svæðum eigi fullan rétt á sér. Það er jafnvel spurning hvort hægt sé að nýta þessi skip að einhverju leyti til að útbúa fiskverndarsvæði, að þeim verði þannig komið fyrir að erfitt verði að vera þar með nokkur veiðarfæri nema þá handfæri eða eitthvað slíkt ef menn vita hvar flökin liggja.

Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé engin mengun af því að gera þetta og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að hægt sé að taka úr þessum skipum öll þau efni sem mengað geta hafið, af hverju er þá lagt til í frv. að þetta verði tímabundið ákvæði? Af hverju velta menn því þá ekki fyrir sér í fullri alvöru hvort þetta eigi að vera opið ákvæði en menn þurfi að sækja um einhvers konar leyfi til að fá að setja þessi skip á einhvern ákveðinn stað á ákveðnum tíma? Ef þetta er af hinu góða held ég að menn gætu komist að því að það þyrfti bara að vera hægt að leyfa þetta þannig að um það yrðu einhverjar reglur.

Þó að við horfum upp á vandamál í höfnum landsins í dag megum við ekki hlaupa til og ætla að leysa það vandamál bara af því að skip hrannast upp. Svo lengi sem við trúum að það sé engin mengun af þessu, þetta sé til bóta, hjálpi fiskstofnunum og jafnvel sé hægt að búa til svæði sem verndi stofna sem við viljum vernda hljótum við að þurfa að velta fyrir okkur ótímabundnu ákvæði um að þetta megi en þá þurfi að sækja um einhver leyfi og fylgja einhverri reglu.