Listnám fatlaðra

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:57:38 (4472)

2004-02-19 16:57:38# 130. lþ. 68.14 fundur 329. mál: #A listnám fatlaðra# þál., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um listnám fatlaðra. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Ágúst Ólafur Ágústsson, Jón Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Anna Kristín Gunnarsdóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem geri úttekt á möguleikum fatlaðra til að stunda tónlistarnám og annað listnám. Kannað verði sérstaklega hvernig tónlistarskólar og aðrir listaskólar svara þörfum fatlaðra hvað varðar aðbúnað og kennslu. Sérstök áhersla skal lögð á að kanna möguleika barna og ungmenna til þess að stunda listnám. Nefndin skili niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta fyrir 1. október 2004.``

Í sjöttu meginreglu SÞ um málefni fatlaðra er fjallað sérstaklega um nám fatlaðra. Þar segir m.a. að aðildarríkin skuli hafa í heiðri þá meginreglu að fötluð börn njóti jafnréttis hvað snertir nám í grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og öðrum menntastofnunum. Aðildarríkin skulu tryggja að menntun fatlaðra sé óaðskiljanlegur hluti menntakerfisins. Hér á landi eiga öll börn lögbundinn rétt á menntun og reynt hefur verið að tryggja að þau geti stundað grunn- og framhaldsnám og þannig reynt að fylgja meginreglum SÞ. Enda þótt meginreglur SÞ leggi ekki lagalegar skyldur á aðildarríkin eru þær skuldbindandi siðferðilega og pólitískt og þær byggjast á kjörorði samtakanna, ,,Eitt samfélag fyrir alla``.

Þótt töluvert hafi áunnist í baráttu fatlaðra fyrir rétti til náms er ljóst að mikið verk er óunnið. Ekki síst ef horft er til listnáms. Þó er alkunnugt að það er ákaflega mikilvægur þáttur í þroska og þjálfun fatlaðra einstaklinga að stunda listnám. Gildir þá einu hvort um líkamlega hömlun eða þroskaröskun er að ræða. Það sanna margar rannsóknir, m.a. rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum. Þar var niðurstaðan sú að það flýtti mjög fyrir þroska fatlaðra barna og hjálpaði þeim félagslega hefðu þau möguleika til listiðkunar eða listnáms.

[17:00]

Norðurlöndin hafa einnig lagt mikla áherslu á rétt fatlaðra til listnáms, sérstaklega á möguleika barna allt frá leikskólaaldri til þess að stunda nám í listgreinum eins og tónlist og leiklist.

Hér á landi eiga fatlaðir litla möguleika á að stunda listnám. Aðstæður er misjafnar eftir svæðum, en hvergi eru þó aðstæðurnar fullnægjandi. Möguleikar fatlaðra barna og ungmenna til tónlistarnáms eru t.d. mjög takmarkaðir. Það er í verkahring sveitarfélaganna að reka tónlistarskóla. Ríkið kemur ekki að rekstri þeirra. Flutningsmenn þessarar tillögu draga í efa að í viðræðum um verkaskipti og tekjustofna ríkis og sveitarfélaga hafi þessum veigamikla þætti í menntun verið gefið það vægi sem eðlilegt hefði verið.

Menntamálaráðuneytið hefur þó á hendi faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu eins og öðru listnámi. Ráðuneytið hefur t.d. sett aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla þar sem vikið er beint og óbeint að jafnræði til tónlistarnáms. Þar segir meðal annars: ,,Hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla er að efla hæfni, þekkingu og þroska nemenda, sem og að stuðla að öflugu tónlistarlífi í landinu. Í skólastarfi tónlistarskóla ber að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi.``

Einnig er í námskránni tekið fram að kennsluaðferðir megi ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.

Í viðauka við námskrána er kafli þar sem meðal annars er rætt um húsakost tónlistarskólanna. Þar segir: ,,Einnig þarf ætíð að gera ráð fyrir greiðu aðgengi fatlaðra.`` Reikna má með að hliðstæð markmið séu í gildi fyrir annað listnám. Hins vegar er ljóst að þessi markmið hafa ekki náðst hvað varðar möguleika fatlaðra til þess að stunda hvers konar listnám. Ekki síst á það við um börn og ungmenni.

Flutningsmenn þessarar tillögu leggja til að menntamálaráðherra skipi nefnd sem nú þegar geri úttekt á möguleikum fatlaðra til þess að stunda tónlistarnám eða annað listnám. Sérstök áhersla verði lögð á að kanna möguleika barna og ungmenna til þess að sækja listnám. Nefndin skili skýrslu og tillögum til úrbóta fyrir l. október 2004.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk menntmrn., sem hefur faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu, og ráðherra að sjá um að þessi mál séu í lagi og að fyrir liggi upplýsingar um aðgengi fatlaðra að tónlistarnámi og öðru listnámi. Eftir að ég fór að grennslast fyrir um málið kom í ljós að menntmrn. hefur að þessu leyti ekki staðið sig í stykkinu. Það er ekki til úttekt á möguleikum fatlaðra til þess að stunda listnám. Þessi tillaga er flutt og í von um úrbætur. Við leggjum til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til menntmn.