Jarðgöng í Reynisfjalli

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 17:11:24 (4474)

2004-02-19 17:11:24# 130. lþ. 68.18 fundur 367. mál: #A jarðgöng í Reynisfjalli# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á gerð jarðganga í Reynisfjalli sem ég flyt ásamt hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur.

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta fara fram úttekt á gerð jarðganga í Reynisfjalli í Vestur-Skaftafellssýslu. Úttektinni verði lokið fyrir 1. september 2004.``

Þetta er tiltölulega einföld þáltill. og skýrir sig sjálf. Hugsunin á bak við hana er að láta fara fram úttekt. Þær raddir hafa heyrst hjá heimamönnum og verið á það bent að með jarðgöngum undir Almannaskarð verði þarna að vetri til eini farartálminn frá Hveragerði og alveg austur í Djúpavog og jafnvel lengra. Með mjög vaxandi umferð um Austurland, ekki síst vegna framkvæmda og ýmissa áforma sem þar eru uppi um uppbyggingu á iðnaði í Vestur-Skaftafellssýslu, vilja heimamenn skoða möguleika á að bæta samgöngur sem er mjög skiljanlegt. Jafnframt hefur verið bent á að í langtímaáætlun er minnst á göng í Reynisfjalli í einhverri framtíð. Þess vegna er þessi þáltill. flutt, til að farið verði í að meta kosti, galla og hagkvæmni slíkra ganga. Þannig verður auðveldara að taka afstöðu til málsins í ljósi breyttra aðstæðna og vaxandi umferðar á þessu svæði.

Ég hygg að það þurfi ekki mikið fleiri orð um þetta, virðulegi forseti, og mælist til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til hv. samgn.