Vetnisráð

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 17:13:32 (4475)

2004-02-19 17:13:32# 130. lþ. 68.19 fundur 452. mál: #A vetnisráð# þál., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[17:13]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun vetnisráðs sem ég flyt ásamt hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, Drífu Hjartardóttur, Guðjóni Hjörleifssyni, Guðjóni Ólafi Jónssyni og Magnúsi Stefánssyni.

Þessi þáltill. felur í sér að iðnrh. skipi vetnisráð til fjögurra ára í senn. Ráðið verði ríkisstjórn til ráðgjafar og upplýsinga um stöðu, framvindu og tækifæri á sviði vetnismála og standi árlega fyrir opnu vetnisþingi. Ráðið verði skipað níu fulltrúum, tveimur frá Íslenskri nýorku, einum frá Samtökum iðnaðarins, einum frá Háskóla Íslands, einum frá Samorku, einum frá Orkustofnun, einum frá Iðntæknistofnun, einum frá Tækniskóla Íslands og formanni sem ráðherra skipar án tilnefningar.

Virðulegi forseti. Það þarf vart að skýra nánar hvers vegna flutt er þáltill. um stofnun vetnisráðs. Við Íslendingar höfum markað okkur spor á þessu sviði og erum af mörgum talin leiðandi, a.m.k. hvað varðar sýn til framtíðar og áræði í að taka fyrstu skref til nýtingu vetnis- og efnarafala.

Frá því að Íslensk nýorka var stofnuð, fyrirtæki í eigu Íslendinga og erlendra aðila sem ætlað er að annast tilraunir þar sem Ísland hefur verið boðið sem tilraunavettvangur á þessu sviði, hafa orðið gífurlegar framfarir og mikið gerst. Að sumu leyti má segja að stjórnsýslan sé sprungin. Við þekkjum að þrír vetnisvagnar aka hér um göturnar, að vetnisstöð, sú fyrsta í heimi, var opnuð hér og þannig má áfram telja.

Hingað hafa komið á fjórða hundrað erlendra fjölmiðlamanna á allra síðustu árum til að fjalla um vetnisvæðingu og vetnisáform okkar Íslendinga. Hingað hefur verið stöðugur straumur nemenda, fjárfesta, tæknimanna, blaðamanna og þar fram eftir götunum ásamt áhugasömum aðilum sem vilja taka þátt í tilraunum hér á landi. Þetta hefur gert það að verkum að eiginlega er farið að líta á Ísland sem forustuland á þessu sviði. En stjórnsýslan hefur að nokkru leyti hikað, þ.e. ekki náð að fylgja þessum hraða.

Þessi tillaga er flutt með það í huga að þeir aðilar sem beint og óbeint tengjast vetnisvæðingunni myndi níu manna vetnisráð og verði ríkisstjórn og stjórnvöldum til ráðgjafar um þennan nýja orkugjafa og þá nýju tækni sem honum fylgir en standi jafnframt árlega fyrir vetnisþingi þar sem fjallað yrði um það sem gerst hefur árið á undan og það sem fram undan er í vetnisvæðingunni. Almenningur og fyrirtæki gætu þannig fylgst með því.

Þetta er hugsunin á bak við stofnun þessa vetnisráðs. Ég vænti þess að þáltill. fái farsæla afgreiðslu í hv. iðnn. en ég legg til að henni verði vísað þangað að lokinni fjörugri umræðu.