Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:09:49 (4479)

2004-02-23 15:09:49# 130. lþ. 69.3 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um frv. til laga um starfsmenn í hlutastörfum. Þar er kveðið á um ýmsar skyldur og réttindi hlutavinnufólki til handa. Þetta frv. er ekki mjög afgerandi. Það segir á þá leið að atvinnurekendur skuli svo sem kostur er leitast við að uppfylla tiltekin skilyrði, svo sem að taka tillit til óska starfsmanns um að auka eða minnka starfshlutfall, veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna, veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað og greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun.

Síðastnefndi þátturinn getur skipt miklu máli og aðrir þættir einnig að sönnu.

Þetta frv. á samkvæmt markmiðsgrein laganna að stuðla að sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði atvinnurekanda og starfsmanna. Allt er þetta til góðs. En viti menn. Í 3. mgr. 2. gr. laganna eru stórir hópar starfsmanna, allir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga í landinu, allt hlutavinnufólk þar, tímavinnufólkið þar undanþegið og engin haldbær rök, engar skýringar hafa komið fram aðrar en ótrúlegur þvergirðingsháttur fjmrn. og sveitarfélaganna sem vilja svipta þennan hóp launafólks þessum sjálfsögðu réttindum. Ég hef óskað eftir því að við 3. umr. þessa frv. verði hæstv. fjmrh. viðstaddur til að skýra hvað valdi því að það eigi að undanskilja þessa hópa þessum lögum. Og fyrir sérstaka áhugamenn um hið Evrópska efnahagssvæði skal þess getið að þessi lög hvíla á tilskipun sem þaðan er komin. Lögfræðingar stéttarfélaganna, bæði ASÍ og BSRB, telja að þessi lög eða þetta frv. eins og það liggur nú fyrir standist ekki þessa tilskipun og að látið verði á það reyna fyrir þar til gerðum dómstólum til að kveða upp úr um það.

Að öðru leyti er þetta frv. hið besta mál og munum við styðja allar greinar þess nema þann hluta 2. gr. sem ég hef vikið að.