Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:24:00 (4482)

2004-02-23 15:24:00# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), Flm. AtlG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Kjarasamningar ASÍ-félaga hafa verið lausir frá áramótum, sjómenn eru með lausa samninga og það styttist í að samningar opinberra starfsmanna losni. Ríkisstjórnin á beina aðild að kjaraviðræðunum sem stærsti atvinnurekandi landsins og hjá ríkinu starfar m.a. fjöldi láglaunafólks, einkum konur.

Ríkisstjórnin hefur einnig komið að kjarasamningum með óbeinum hætti og má færa rök að því að hún hafi með ýmsum hætti gert samningsaðilum erfitt fyrir um að ná landi í viðræðum sínum. Ýmsar álögur hafa verið hækkaðar, nú síðast við afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót og oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað tengt loforð sín um skattalækkanir frá því fyrir kosningar við væntanlega kjarasamninga. Ríkisstjórninni ber að skýra stefnu sína þannig að samningsaðilar viti að hverju þeir ganga.

Umræðan sem ég hef nú hafið er af minni hálfu hugsuð til að knýja á um svör við nokkrum kjarnaatriðum.

Í fyrsta lagi er brýnt að ríkisstjórnin sem slík og ríkið sem atvinnurekandi geri skýra grein fyrir afstöðu sinni til hækkunar lægstu launa, þar með talin atvinnuleysislaun og lífeyrislaun aldraðra og öryrkja frá Tryggingastofnun ríkisins. Í þessu samhengi vil ég minna á þá staðreynd að heildartekjur kvenna eru einungis 70% af heildaratvinnutekjum karla. Ein meginskýring þessa tekjumunar er sú staðreynd að vinna kvenna, m.a. við umönnun sjúkra, umönnun barna, við þrif og önnur mikilsverð störf er vanmetin. Ríkið er atvinnurekandi mikils fjölda þessara kvenna og ber ríka ábyrgð á því að þessari launamismunun linni, og á reyndar að vera í lófa lagið í yfirstandandi kjarasamningum að gera verulega bragarbót. Lítið sem ekkert hefur þokast í launajafnréttisátt síðasta áratuginn. Hvaða fyrirheit getur ríkisstjórnin gefið þeim sem lægst hafa launin?

Í öðru lagi hlýtur verkalýðshreyfingin að vilja fá skýr svör við því hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í skattamálum. Ríkisstjórnin hefur til þessa lagt áherslu á að lækka skatta stóreigna- og hátekjumanna með niðurfellingu sérstaks eignarskatts, lækkun eignarskatts og nú síðast með niðurfellingu hátekjuskatts í áföngum og boðar lækkun erfðafjárskatts.

Á sama tíma eru tekjur undir fátæktarmörkum skattlagðar, svo sem atvinnuleysislaun og lágmarkslífeyristekjur aldraðra og öryrkja svo dæmi séu nefnd. Skattleysismörk við álagningu á tekjur árið 2003 miðast við 69.585 kr. mánaðarlaun og hvorki persónuafsláttur né tekjumörk barnabóta og vaxtabóta hafa fylgt verðlagsþróun. Ég spyr: Hver eru áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum í tengslum við gerð kjarasamninga?

Í þriðja lagi er aðkallandi að ríkisstjórnin svari kalli verkalýðshreyfingarinnar um jöfnun lífeyrisréttinda. Mikill munur er á lífeyrisréttindum starfsmanna á opinberum og almennum vinnumarkaði. Munur á lífeyrisgreiðslum getur numið allt að 40--70 þús. kr. á mánuði. Þá hafa orðið verulegar breytingar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða ASÍ-félaga, sem m.a. stafa af því að Tryggingastofnun ríkisins hefur þrengt rétt þeirra sem búa við örorku sem að einhverju eða jafnvel öllu leyti má kalla ,,félagslega örorku``. Undir þeirri greiðslubyrði á ríkið að standa en ekki almennir lífeyrissjóðir.

Lög sem sett voru rétt fyrir jólin um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara voru olía á eld þessa ágreiningsmáls. Væri nær að ríkisstjórnin einhenti sér í jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna allra. Markmiðið hlýtur að vera að ganga betur út frá og tryggja betur og bæta lífeyrisrétt í almenna kerfinu. Það þarf að jafna réttindin upp á við, ef svo má að orði komast. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í þessum efnum?

Í fjórða lagi boðar ríkisstjórnin afnám sjómannaafsláttar og vísar sjómönnum á Landssamband íslenskra útvegsmanna. Landssambandið segir þvert nei og er ekki við öðru að búast úr þeim herbúðum. Það er rétt að minna á að hjá ríkinu starfar einnig fjöldi sjómanna svo sem á varðskipum. Þetta innlegg ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður sjómanna er að mínu mati vanhugsað og standa sjómenn sem einn maður gegn því. Þeir munu aldrei samþykkja þessa kjaraskerðingu.

Ef fella á niður sjómannaafslátt verða aðrar sambærilegar kjarabætur að koma til sögunnar áður. Sjómenn spyrja og krefjast einfaldra svara: Hyggst ríkisstjórnin halda fast við fyrirætlan sína um afnám sjómannaafsláttar?