Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:29:17 (4483)

2004-02-23 15:29:17# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin vill að sjálfsögðu stuðla að því að hér verði friður á vinnumarkaði og kjarasamningar náist þannig að stöðugleiki verði í þjóðfélaginu. Það er öllum mikilvægt að viðhalda þeim stöðugleika sem hefur verið hér á undanförnum árum og aðilar vinnumarkaðarins eru núna að semja um kjör á launamarkaði.

Það er eðlilegt að línur í kjarasamningum skýrist á hinum almenna vinnumarkaði og af því að hv. þm. spurði um hækkun lægstu launa er það að sjálfsögðu viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins að takast á um hver verður hækkun lægstu launa. Mér er hins vegar fullkunnugt um að á þetta atriði er lögð mikil áhersla sem ég fagna og ég vænti þess að hægt sé að semja um viðsættanlegar tölur í þessu sambandi.

Hv. þm. spurði um skattamál. Ég vil aðeins ítreka það sem fram hefur komið hjá ríkisstjórninni í þeim efnum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að afnema hinn svokallaða hátekjuskatt. Það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að eignarskattur verði afnuminn og það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að lækka skattprósentuna verulega og undirbúningur þess máls er í fullum gangi.

Aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandið, hefur óskað eftir fundum með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og hafa tveir slíkir fundir átt sér stað. Þar hefur fyrst og fremst verið rætt um tvö mál, þ.e. um jöfnun lífeyrisréttinda og um atvinnuleysisbætur. Það hafa átt sér stað ágætar viðræður milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa ASÍ um þessi mál og er alveg ljóst að ríkisstjórnin fyrir sitt leyti er tilbúin að koma að málum þegar efni standa til, það er ekki komið að því, og reyna að leysa mál eftir því sem svigrúm er til innan marka fjárlaga og stuðla þannig að kjarasamningum sem tryggja vinnufrið í landinu og stöðugleika í efnahagsmálum.