Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:41:02 (4488)

2004-02-23 15:41:02# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er undarlegt að heyra hv. formenn stjórnarandstöðuflokkanna koma hér upp og ræða um stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum eins og komið sé að lokum kjörtímabils. Það er eins og hv. þingmenn geri sér ekki grein fyrir því að það er rétt rúmlega hálft ár frá kosningum. Þetta eru undarlegar ræður sem hér eru settar á. Að sjálfsögðu munu ríkisstjórnarflokkarnir standa við þau metnaðarfullu loforð um skattalækkanir sem kynntar hafa verið og virðast örlítið pirra hv. stjórnarandstöðu.

Við hljótum samt líka að spyrja um tilefni þessarar umræðu núna. Hver er aðkoma ríkisstjórnar að kjaraviðræðunum? Ég veit ekki betur en að um það hafi verið sátt, og það nokkuð lengi, að fulltrúar launþega og atvinnurekenda fari að því borði, annist kjaraviðræður. Um það hefur verið sátt ansi lengi og um það hafa verið sett sérstök lög sem ég hygg að sé nokkuð almennur stuðningur við.

Ég veit heldur ekki betur en að þau mál séu í eðlilegum farvegi. Til allrar hamingju berast jákvæðar fréttir frá þeim viðræðum um að vel gangi saman í viðræðum um kjaramál á milli atvinnurekenda og launþega. Þess vegna er mér óskiljanlegt tilefnið einmitt núna. Er verið að ætlast til þess af hv. málshefjanda, hv. þm. Vinstri grænna Atla Gíslasyni, að ríkisstjórnin grípi inn í viðræður í miðjum klíðum, viðræðum sem ganga afskaplega vel? Ég vil ekki segja að umræðan sé óþörf en a.m.k. vil ég segja að hún er ótímabær. (SJS: Þú sérð a.m.k. ástæðu til að taka þátt í henni.)