Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:42:51 (4489)

2004-02-23 15:42:51# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á alþjóðlegum vinnumarkaði sem hafa haft afleiðingar hér á landi eins og annars staðar. Í kjölfar alþjóðavæðingar hefur orðið umbylting á eignarhaldi fyrirtækja. Stjórnunaraðferðir eru fjarlægari og ópersónulegri. Atvinnurekendur telja sig ekki bera þá samfélagslegu skyldu sem áður þótti eðlileg. Líklegt er að enn aukist kröfur um hagræðingu og lægri launakostnað í framtíðinni og að íslenskt launafólk muni í auknum mæli finna fyrir þessum breytingum.

Það er líka ýmislegt í umhverfi launafólks sem stjórnvöld þurfa að grípa inn í. Atvinnulausum er að fjölga. Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar frá í desember fjölgaði þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða meira um 82% í fyrra. Hagdeild ASÍ spáir því að fleiri verði atvinnulausir í ár en í fyrra og að sú þróun haldi áfram árið 2005. Tvöfalt lífeyriskerfi með innbyggðri mismunun og sífellt vaxandi skuldbindingum fyrir opinbera aðila kallar á breytingar og þess vegna er krafa samtaka launafólks um aðkomu ríkisvaldsins að kjarasamningum eðlileg og nauðsynleg. Réttindi fólks til atvinnuleysistrygginga þarf að treysta og auka fullorðinsfræðslu og símenntun til að taka á vanda langtímaatvinnulausra.

Á sama hátt þarf að móta skynsama stefnu í málefnum útlendinga með það m.a. fyrir augum að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og kjararýrnun sem leiðir til vaxandi útlendingaandúðar ef ekkert er að gert.

Herra forseti. Verkalýðshreyfingin vill leggja grunn að traustum kjarasamningum en hún getur það ekki nema ríkisvaldið axli þá ábyrgð sem því ber. Enn hefur ríkisstjórnin ekki svarað neinu um það hvað hún ætli að leggja af mörkum við kjarasamningana til að tryggja hér stöðugleika í efnahags- og atvinnumálum á næstu árum og eftir því hljótum við að kalla, virðulegi forseti.