Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:06:27 (4499)

2004-02-23 16:06:27# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er með nokkuð blendnum huga sem ég tek á móti þessu frv. til laga um breytingu á lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er jákvætt og gott í sjálfu sér að að mestu leyti hefur náðst samkomulag um endurskoðun á þessum verndarlögum sem alllengi hefur verið til umræðu og sem heimamenn, einkum og sér í lagi í Skútustaðahreppi, hafa þrýst nokkuð á um til að færa meðferð mála á þeim slóðum til meira samræmis við það sem gildir almennt hvað varðar byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi. Þá eru það ákaflega mikil vonbrigði og vekur satt best að segja mikla furðu að það smyglgóss skuli vera með í för sem raun ber vitni. Þar á ég að sjálfsögðu við ákvæði til bráðabirgða III í þessu frv. sem á ekkert skylt við undirbúningsvinnuna að málinu, er í algerri andstöðu við helstu samstarfsaðila ráðuneytisins um undirbúning frv. að öðru leyti, einkum og sér í lagi landeigendur við Laxá og Mývatn, og er auðvitað ekkert annað en skýlaust brot á samkomulagi deiluaðila í Laxárdeilunni sem innsiglað var með undirritun samninga 16. maí í Reykjavík og 19. maí að Stóru-Tjörnum árið 1973.

Það samkomulag er grundvallargagn sátta í Laxárdeilunni. Lögin eru síðan skilgetið afkvæmi samkomulagsins sem gert var milli ríkisstjórnar, landeigenda við Laxá og Mývatn og Laxárvirkjunarstjórnar sem þá var. Það er kaldhæðnislegt að undir samkomulagið ritar af hálfu ríkisstjórnar Ólafur heitinn Jóhannesson, þáverandi forsrh. og formaður Framsfl. Að það skuli þurfa að bætast við annað sem hæstv. umhvrh. leggur á sig í þessum leiðangri fyrir Landsvirkjun eina ferðina enn, að helga henni meira land og auka olnbogarými hennar í virkjunarmálum og ætla að rjúfa þá með beinum hætti grið eftir einhverja harðvítugustu, illvígustu og sögufrægustu deilu á sviði umhverfismála sem nokkurn tíma hefur orðið hér í landi og eftirminnilegt samkomulag sem þáverandi formaður Framsfl. og forsrh. beitti sér mjög fyrir á lokamánuðum deilunnar að ná fram.

Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að fara aðeins yfir aðdraganda Laxárdeilunnar og setja í samhengi við þá atburðarás þá hluti sem hér eru undir. Rétt er að minna fyrst á að virkjunaráform, löngun virkjunaraðila í að mega athafna sig að vild, jafnvel þó að í hlut ættu einhver viðkvæmustu náttúrusvæði landsins, voru þá sem fyrr undirrót deilunnar. Á miðju ári 1969 komu upp úr kafinu virkjunaráform Laxárvirkjunarstjórnar, svonefnd Gljúfurversvirkjun. Þau gengu út á að virkja í nokkrum áföngum með hækkandi stíflum Laxá við Brúar efst í Laxárgljúfrum og enda þar í allt upp undir 60 metra hárri stíflu með gríðarmiklu uppistöðulóni sem færði stóran hluta af neðri hluta Laxárdals í kaf. Í síðari áföngum átti að veita vatni úr Svartá og Suðurá sem falla til Skjálfandafljóts yfir í Kráká og áfram niður í gegnum Laxá og til sjávar. Með þessu öllu saman átti að reisa meðalstóra vatnsaflsvirkjun upp á ein 80 megavött í afli.

Heimamenn brugðust eðlilega fárir við, einkum og sér í lagi auðvitað landeigendur, bændur í Laxárdal og við Mývatn, veiðiréttarhafar og aðrir slíkir sem annt var um þetta svæði og náttúruvernd á því. Menn stofnuðu landeigendafélag, og baráttumenn fyrir umhverfisvernd alls staðar að af landinu tóku höndum saman við heimamenn í Þingeyjarsýslum um andóf gegn þessum áformum.

Framganga virkjunaraðila á þeim tímum var á þann veg að ekki var verið að hafa mikið fyrir því að tala við þá sem í hlut ættu. Vegna þess að menn höfðu rétt á landinu þar sem stíflan sjálf átti að rísa töldu þeir sig hvorki þurfa að ræða við kóng né prest og höfðu líka tamið sér þann framgangsmáta, samanber t.d. þegar stíflumannvirki voru reist við útfallsósa Mývatns án þess að nokkurt samkomulag hefði tekist við landeigendur þar. Þar á meðal átti í hlut hin fræga Miðkvíslarstífla sem síðar var fjarlægð.

Baráttan fór fyrir dómstóla og varð m.a. söguleg af þeim ástæðum að sýslumaður Þingeyinga, Jóhann Skaptason, vék frá byrjun sæti sem slíkur þar sem hann var sjálfur virkur þátttakandi í baráttu heimamanna gegn virkjunaráformunum. Þurfti á öllum stigum að setja sýslumann eða dómara í málið.

Auðvitað var ljóst, og ég held að fáir deili um það í dag, að þarna átti að fara fram með grófri lögleysu og miklu ofríki í garð hagsmunaaðila og landeigenda á þessum slóðum. Ég held að það verði ekki orðað öðruvísi í dag og mundi náttúrlega tæplega hvarfla að einum né neinum --- og þó. Það sem enn er að gerast er býsna keimlíkt. Hæstv. umhvrh. leggur fram frv. með ákvæði til bráðabirgða III í sem hæstv. ráðherra veit að er í algerri andstöðu við ríkjandi sjónarmið landeigenda á sama svæði, hagsmunafélag landeigendanna við Laxá og Mývatn. Þetta veit hæstv. ráðherra vel og ráðuneytisstjóri hæstv. ráðherra sem var einhvers konar undanfari, að sögn greinar í Morgunblaðinu í dag, til að kynna mönnum erkibiskupsboðskapinn væntanlega, í desembermánuði sl. Því var tekið fálega þykist ég hafa eftir áreiðanlegra manna heimildum og sömuleiðis veit hæstv. ráðherra vel, eftir að hafa fundað með mönnum, að hún nýtur ekki stuðnings við þessa leið í málinu. Engu að síður er látið undan, væntanlega, þrýstingi Landsvirkjunarmanna sem þarna vilja fá sitt fram eins og venjulega.

Landeigendur, eins og áður sagði, stofnuðu með sér félag, fyrst í kringum Laxársvæðið sem síðar varð Landeigendafélag Laxár og Mývatns. Um svipað leyti varð til félag veiðiréttarhafa í Mývatnssveit og við Laxá og Kráká. Menn bundust samtökum og skipulögðu sig með ýmsum hætti. Framan af ári 1970 leit allt út fyrir að ekki stæði til að gera eitt né neitt með andstöðu heimamanna og þeim gekk erfiðlega að ná eyrum stjórnvalda. Það hefur án efa átt sinn þátt í þeirri einstæðu aðgerð, að kvöldi 26. ágúst 1970, þegar á annað hundrað manns úr Þingeyjarsýslum komu saman búnir verkfærum og fjarlægðu stífluna í Miðkvísl, notuðu reyndar að hluta til dýnamít við það því að inni í jarðvegsstíflunni reyndist steinkjarni, og varð landsfrægt mál. Þeir töldu stífluna reista í fullkomnu leyfisleysi og sannanlegt er að aldrei var gert neitt samkomulag við þá landeigendur um þá ráðstöfun sem og þær breytingar á rennsli Mývatns sem af þessu stöfuðu, stíflur sem torvelduðu silungagöngur og gripu með ýmsum hætti inn í viðkvæmt og einstakt lífríki á þessum slóðum.

[16:15]

Eins og rækilegar síðari tíma umhverfisrannsóknir hafa sýnt fram á eru Mývatn og Laxá eitt, og vistkerfið og vatnasvæðið allt, og getur hvorugt án hins verið. Ég hef ekki tíma hér, herra forseti, til að fara eins og vert væri og skylt í þetta mál því að það verðskuldaði langa ræðu að gera rækilega grein fyrir þessu einstaka máli. Ég held að mörgum væri hollt og þarft að rifja það upp núna. Ég leyfi mér að mæla þar t.d. með bók sem skrifuð er af lögmanni landeigenda, Sigurði Gizurarsyni. Sömuleiðis hefur Erlingur Sigurðarson frá Grænavatni gert merka kandídatsritgerð um deiluna. Síðan má benda á þau rit sem út komu í kjölfar rannsókna, sem spruttu upp úr Laxárdeilunni, á Mývatni og Laxá og eru nánast einstæðar í sinni röð á Íslandi. Það er helst að rannsóknir á Þingvallavatni komist nálægt því sem gert hefur verið við Mývatn og er allt saman meira og minna með einum og öðrum hætti afsprengi þessa máls, þ.e. Laxárdeilunnar miklu sem stóð linnulaust frá árinu 1969 og fram til 20. maí 1973 þegar hún var til lykta leidd.

Það varð landeigendum að miklu gagni í þessu streði öllu, þrátt fyrir að þeir ættu erfitt uppdráttar lengi varðandi það að ná rétti sínum fyrir dómstólum, að þeir náðu þó fram með dómi Hæstaréttar lögbanni á að vatni yrði veitt á aflvélar Gljúfurversvirkjunar eða Laxár III, eins og síðar var tekið að kalla hana. Þá var uppi sú sérkennilega staða í málinu að stjórnvöld höfðu veitt virkjunaraðilum öll framkvæmdaleyfi, framkvæmdir voru hafnar og þær gátu í sjálfu sér haldið áfram, en landeigendur höfðu fyrir dómstólum náð því fram að óheimilt væri að veita vatni úr Laxá inn í virkjunina. Var þá til lítils streðað við að byggja hana ef aldrei færi um hana neitt vatnið. Þannig var staðan lengst af meðan deilan geisaði og styrkti auðvitað mjög, smátt og smátt, stöðu landeigenda að þeir höfðu þennan lögbannsdóm Hæstaréttar frá því í desember 1970, ef ég man rétt, á bak við sig. Mig minnir að dómur hafi fallið 15. desember 1970.

Deilan stóð hins vegar linnulaust. Enginn efast um að ef ekki hefði verið fyrir þrotlausa baráttu og órofa samstöðu virkjunarandstæðinga hefði farið öðruvísi. Allt fram undir hið síðasta gengu meira og minna allar tilraunir út á að brjóta andstöðu þeirra á bak aftur. Stjórnarskiptin 1971 höfðu þó vissulega nokkur áhrif og sú staðreynd að þá settist að völdum stjórn sem hafði á bak við sig m.a. þá þingmenn sem helst höfðu þó reynt að miðla málum eða beinlínis höfðu tekið upp málstað landeigenda, eins og Jónas Árnason og Lúðvík Jósepsson. Magnús Kjartansson, eftir að hann varð iðnrh., reyndi talsvert að beita sér fyrir lausn deilunnar og einnig Ólafur Jóhannesson, eins og áður sagði.

Það er svo þegar Laxárvirkjunarstjórn stendur frammi fyrir því að hún kunni e.t.v. að sitja uppi með fullbyggða virkjun --- sem reyndar var hönnuð og byggð að miklu leyti miðað við miklu stærri virkjun og framhaldsáfanga Gljúfurversáætlunarinnar sem þá þegar var orðið ljóst að aldrei yrði samstaða um og aldrei fengist leyfð, eins og að veita Svartá og Suðurá um Kráká til Laxár --- sem hún gerir sér grein fyrir þeirri sérkennilegu stöðu að búið var að fjárfesta þarna í mannvirkjum sem aldrei yrðu nein not fyrir miðað við það að ekki fengist samþykktur nema í mesta lagi fyrsti áfangi virkjunarinnar. Ekki bætti úr skák ef ekki einu sinni fengist vatn inn á þann hluta virkjunaráformanna vegna lögbanns dómsins. Þetta leiddi svo smátt og smátt allt saman til þess, herra forseti, eins og áður sagði, að samkomulag náðist og var reyndar ótrúlega nálægt því, að lokum, sem þegar hafði verið lagt til í drögum snemma á árinu 1971. Það tók heil tvö ár að fá stjórnendur Laxárvirkjunar og stjórnvöld til að kyngja því og fallast á að vegna andstöðu heimamanna yrði ekki gengið lengra en að virkjun án vatnsborðshækkunar. Sú varð að lokum niðurstaðan.

Undir samkomulagið ritar, eins og áður sagði, þáverandi forsrh., Ólafur Jóhannesson, f.h. ríkisstjórnarinnar, í Reykjavík 16. maí, og að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði f.h. Laxárvirkjunar Valur Arnþórsson, Jón Sólnes, Baldvin Baldursson, Sigurjón Rist og Ingólfur Árnason, en f.h. Landeigendafélags Laxár og Mývatns Hermóður Guðmundsson, Eysteinn Sigurðsson, Jón Jónasson, Vigfús B. Jónsson og Þorgrímur Starri Björgvinsson.

Þarna eru á ferðinni helstu forvígismenn landeigenda og verndunarsinna í Þingeyjarsýslum, Hermóður Guðmundsson auðvitað sem stóð fremstur allra í baráttunni, Eysteinn Sigurðsson á Arnarvatni og Þorgrímur Starri Björgvinsson í Garði, að öðrum ólöstuðum. Þessir þrír látnu heiðursmenn stóðu saman eins og einn klettur í þessari baráttu og munaði um minna en þessa kappa. Má þá geta þess að þeir Hermóður og Eysteinn á Arnarvatni voru báðir synir ástríkra skálda í Þingeyjarsýslum þar sem voru Guðmundur Friðjónsson á Sandi og Sigurður Jónsson á Arnarvatni.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég hefði fyrr trúað öðru en að menn væru svo gæfusnauðir hér á Íslandi að umgangast þetta mál í ljósi þeirrar sögu sem að baki liggur með þeim hætti sem hér er nú að verða raun á. Satt best að segja skil ég ekkert í framgöngu hæstv. umhvrh., séu ráðherra frjálsar hendur í þessu máli, að láta hafa sig í það erindi að flytja málið inn í alþingissali eins og raun ber vitni.

Í beinu framhaldi af og á grundvelli samningsins sem er löggerningur, formlegur samningur þessara aðila og enn í gildi --- eða lítur hæstv. umhvrh. ekki svo á að samningurinn, samkomulagið, milli ríkisstjórnar Íslands, Laxárvirkjunarstjórnar, sem nú er Landsvirkjun, og Landeigendafélags Laxár og Mývatns sé enn í fullu gildi? Mér er ekki kunnugt um að honum hafi verið sagt upp eða hann sé ómerkur á einn eða neinn hátt. Hann er algerlega afdráttarlaus og í samræmi við hann eru lögin sem um er samið að fylgi samningnum.

Í 1. gr. samningsins segir:

,,Laxárvirkjun lýsir yfir að hún muni ekki stofna til frekari virkjana í Laxá umfram þá 6,5 megavatta virkjun sem nú er unnið að og sem ekki hefur vatnsborðshækkun í för með sér nema til komi samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.``

Ekkert slíkt samþykki liggur fyrir. Þess vegna er Landsvirkjun bundin af þessu líka og hún á ekki að hreyfa sig hænufet fyrr en nýtt samkomulag liggur fyrir. Ríkisstjórnin muni beita sér fyrir rannsóknarfé, Landeigendafélagið, samkvæmt 2. gr. samningsins, afléttir í staðinn lögbanni við vatnstöku fyrir nefnda 6,5 megavatta virkjun. Landeigendafélagið aflétti lögbanni sem það hafði í höndunum og gat stöðvað frekari framkvæmdir á grundvelli þess þannig að virkjun Laxárvirkjunar hefði staðið tóm svo lengi sem málaferli hefðu staðið yfir og jafnvel að eilífu, ad infinitum, ef Landeigendafélagið hefði unnið slík mál.

Þessu afsalar stjórnin úr höndum sér á grundvelli samningsins. Og það var ekki gert af neinni léttúð, heldur vegna þess að menn töldu sig vera að vinna fullnaðarsigur, að þeir hefðu það algerlega í höndum sér að aldrei yrði um frekari vatnsborðshækkun eða röskun að ræða. Það liggur fyrir, það lá fyrir þá og það liggur fyrir enn að menn eru slíku andvígir.

Í þessum samningi, 9. gr. hans, stendur:

,,Ríkisstjórnin mun láta semja frumvarp til laga um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins og leggja það fyrir Alþingi.``

Það er verið að tala um frv. að þeim lögum sem við erum nú að ræða breytingar á. Það er þarna, í samningnum frá því í maí 1973, og er í anda samkomulagsins efnislega, þar á meðal og ekki síst sú grein sem hæstv. ráðherra ætlar núna að búa til lykkju fram hjá með ákvæði til bráðabirgða III, þ.e. að breytingar á hæð vatnsborðs, stöðu vatna og rennsli straumvatna séu óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.

Það er beinlínis þannig í lögunum að allar vatnsborðshækkanir eru óheimilar nema þær lúti þessum tilgangi og séu samþykktar af viðkomandi aðilum.

Samþykktir Landeigendafélags Laxár og Mývatns bera líka merki um það í hvaða anda þessum málum var lent en þar er þetta sama tekið fram, að félagsmenn í Landeigendafélagi Laxár og Mývatns ganga í félagið sem leggur þær kvaðir á að ekki verði hróflað við rennslisháttum, og vatnsborði verði ekki hreyft. Í raun og veru undirgangast allir félagsmenn þá stefnu félagsins, þau ákvæði í samþykktum þess, að þetta verði ekki gert. Allt hangir þetta saman, allt tengist það í þeim sama punkti að grundvöllur sátta í deilunni var: Engin vatnsborðshækkun, engin virkjun umfram 6,5 megavött. Það er algerlega kristaltært. Og það er þetta sem hæstv. ráðherra fer að mínu mati fram hjá.

Einn angi deilunnar enn og kannski sá jákvæðasti á margan hátt þegar frá leið var það sem sett var af stað og áfram síðan samið um og varðaði rannsóknir á lífríki Laxár og Mývatns. Eitt af því sem kom í ljós var að sáralitlar rannsóknir höfðu farið fram þarna á lífríkinu aðrar en þær sem miðuðu beint að virkjunum og virkjunaráformum. Strax á árinu 1970 setti þáverandi iðnrh. af stað rannsóknir. Var lögð á það áhersla að hraða þeim mjög og til verksins voru fengnir Pétur M. Jónasson og Jón Ólafsson og til aðstoðar var Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur.

Heildarrannsóknunum sem þarna hófust á lífríki Laxár og Mývatns var hraðað eftir því sem kostur var og strax í lok árs 1972 skiluðu þremenningarnir skýrslum og lögðu til algera verndun Mývatnssvæðisins og Laxár, litu á Mývatn og Laxá sem eina heild. Síðan héldu þessar rannsóknir áfram og urðu síðar að einhverjum merkustu náttúrufars- og lífríkisrannsóknum sem hér hafa nokkurn tíma farið fram, eins og ég áður sagði. Um þetta geta menn m.a. lesið í íslenskri útgáfu þessara rannsókna eða bók sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf út þar sem eru grundvallargreinar um jarðfræði og líffræði svæðisins, að stofni til svipað og er í heildarútgáfunni sjálfri sem reyndar er á ensku.

Ég verð að segja, herra forseti, að í mínum huga er það algerlega fráleitt í ljósi forsögu málsins að rökstyðja það eins og hæstv. umhvrh. gerði hér áðan. Ég gef minna en ekki neitt fyrir það, ég hafna því algerlega. Það eru sýndarrök að taka þurfi þessa heimild inn til þess að hægt sé að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Mat á umhverfisáhrifum --- hvað? --- í þágu framkvæmdar sem er í andstöðu við gildandi lög, gildandi samning, samþykktir Landeigendafélagsins og vilja þess? Þetta er út í hött, hæstv. ráðherra, algerlega út í hött.

Ætli menn eitthvað af stað á þessu svæði á að byrja á því að ná um það samkomulagi. Mat á umhverfisáhrifum er í tilteknu, lögbundnu ferli, það er mat á væntanlegum framkvæmdum, á umhverfisáhrifum þeirra, og það er þess vegna alger rökleysa að opna fyrir lagaheimild sem er í andstöðu við meginákvæði laganna sjálfra með bráðabirgðaákvæði af þessu tagi. Fyrir utan þá hugsun að hafa þennan víxil opinn í tíu ár. Hvaða speki er það, hvaða tilgangi þjónar það?

Nei, herra forseti, hér er verið að breyta því jafnvægi milli aðila sem var grundvöllur sáttanna á sínum tíma. Það er verið að opna á það að beita landeigendur stanslausum þrýstingi í tíu ár til að fallast á þessar framkvæmdir. Ef andstaðan skyldi einhvern tíma bila þannig t.d. að vegna mannabreytinga eða af öðrum ástæðum kæmust stuðningsmenn virkjunarinnar augnablik í meiri hluta væri hægt að sæta færis.

[16:30]

Er þetta sú aðstaða sem er boðleg? Nei, þetta er í algerri andstöðu við það jafnræði með aðilum sem búið var til á grundvelli sáttanna á sínum tíma. Halda menn að menn hefðu fallið frá lögbanni sem þeir höfðu höndunum? Halda menn að menn hefðu fallið frá að sækja rétt sinn til enda á grundvelli dómstóla ef þeir hefðu á þeim tíma getað átt von á slíkum samskiptum af hálfu stjórnvalda? Nei, það held ég varla, enda ekki hætta á því þegar sjálfur forsrh. ríkisstjórnar var einn helsti arkitektinn að samkomulaginu á sínum tíma. Mér finnst þetta því, herra forseti, algerlega óframbærileg röksemdafærsla og hún heldur auðvitað ekki stundinni lengur ef betur er að gáð.

Ég vek athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, sunnudaginn 22. febrúar, eftir Halldór Valdimarsson, skólastjóra á Húsavík, sem er gjörkunnugur þessum málum. Þar er afar athyglisverðar upplýsingar að finna um aðdraganda þess að þetta ákvæði til bráðabirgða kemur inn í lögin og ég hvet menn til að kynna sér það. En það er sem sagt þannig að löngu eftir að nefndin lauk störfum sem hampað er hér að hafi náð saman um meginefni þessa frv., þá kemur erindreki ráðherrans norður til að boða mönnum það að þetta verði með í farteskinu, þetta ákvæði til bráðabirgða III, sem á auðvitað ekkert skylt við þær breytingar sem menn voru ásáttir um að gera á lögunum um verndum Laxár og Mývatns að öðru leyti, þ.e. að hrófla ekki við verndunarstiginu hvað varðar Mývatn, Laxá, bakkana umhverfis og votlendissvæðin sem þarna verða tekin inn undir samkvæmt korti hér í fskj. I sem menn geta kynnt sér nánar.

Réttarstaðan að þessu leyti á þessum hluta svæðisins er algerlega óbreytt og verndin helst. Það sem gerist hins vegar er það að Skútustaðahreppur er í heild sinni ekki lengur settur undir þessi ákvæði með sama hætti og áður var þótt láti nærri að stór hluti hans lendi inn undir þegar um vatnasviðsverndina er að ræða. Um þetta fyrirkomulag verndunarinnar hef ég ástæðu til að ætla að gæti orðið góð sátt. Það er fyrst og fremst eitt atriði í frv. sjálfu að slepptu bráðabirgðaákvæði III sem er mikið álitamál að mínu mati og það er spurningin um, sem er auðvitað til skammar, að engin verndaráætlun skuli hafa verið unnin fyrir svæðið eins og borið hefur að gera í 30 ár og okkur ber að gera, vegna þess að þetta er fyrsta svæðið á Íslandi sem var tilkynnt á grundvelli Ramsar-sáttmálans sem slíkt vatnsverndarsvæði eða votlendissvæði. Þar ber okkur sú skylda á grundvelli þeirra ákvæða að láta vinna slíkar verndaráætlanir.

Enn eru menn að vandræðast með þetta og ákvæði til bráðabirgða I gerir ráð fyrir að slík verndaráætlun skuli vera tilbúin 1. janúar 2006. Auðvitað mætti færa rík rök fyrir því að gildistöku laganna ætti einfaldlega að haga með hliðsjón af því að ekki ætti að hrófla þarna við einu eða neinu fyrr en verndaráætlunin lægi fyrir. Og allra fráleitast er að ætla að fara að opna á frekari virkjunarframkvæmdir inni á svæðinu, því þetta er auðvitað ekkert annað, áður en verndaráætlunin sjálf lítur dagsins ljós. Það bítur höfuðið af skömminni að ætla að hafa gildistöku laganna samtímis en verndarákvæðin þurfa ekki að liggja fyrir fyrr en 2006, en bráðabirgðaákvæði komi strax í gagnið. Menn gætu því farið að undirbúa þarna virkjun og fara í umhverfismat á henni sem væri í andstöðu við heimamenn, brot á samningunum frá sínum tíma, þó að engin verndaráætlun lægi fyrir. Þetta blasir við hverjum manni.

Þessa málatilbúnaður stenst ekki. Bráðabirgðaákvæði III á að fara út úr frv. tafarlaust og hæstv. ráðherra væri maður að meiri að kalla málið aftur og endurflytja það hér án þessa umdeilda ákvæðis. Og þá hygg ég að menn gætu farið yfir það í hv. umhvn. hvort menn vildu láta lagaskilin vera að einhverju leyti önnur. Áhugamenn ýmsir og þeir sem að málinu komu t.d. frá hlið náttúrufræðinga og rannsóknastöðvarinnar við Mývatn, hafa haft athugasemdir og reyndar skilað minnihlutaáliti varðandi 2. mgr. ákv. til brb. II sem lýtur að undirbúningi undir friðlýsingu landvæða þeirra sem falla reyndar ekki undir 1. mgr. 2. gr., þ.e. aðliggjandi landsvæða. Síðan þykist ég vita að margir vildu sjá að verndaráætlunin yrði tengd inn í þetta þannig að réttarstöðu eða verndarstigi svæðisins væri í engum tilvikum raskað í átt til veitingar í einu eða neinu fyrr en verndaráætlunin lægi fyrir og það væri í samræmi við hana og á grundvelli hennar gert. Og þá meina ég auðvitað þá stóru breytingu sem verður með því að færa verndarsvæðið eða gildissvið laganna inn frá því að vera allur Skútustaðahreppur og síðan niður með Laxá og í það að vera vatnið, áin og 200 metrar upp á bakkana, auk votlendissvæðanna sem þarna eiga líka í hlut.

Herra forseti. Vandamálin sem Landsvirkjun ber fyrir sig í þessum efnum eru þau og eru vel þekkt að það sé kostnaðarsamt slit á vélum Laxárvirkjunar vegna sandburðar í ánni og stundum verða þarna vandamál af völdum krapa við inntakið, og þetta er fært fram sem meginrökin í málinu, ekki einu sinni sú viðbótarorkuframleiðsla í sjálfu sér sem þarna á að nást, enda vegur hún ekki þungt á nútímamælikvarða. Það eru því slíkar rekstrartæknilegar aðstæður sem Landsvirkjun ber þarna fyrir sig og lætur jafnvel í það skína á móti að ef menn verði ekki þægir og fallist á þetta loki hún bara virkjuninni. Ég segi nú bara: Ja, hvað með það? Ef þetta er svona óhagkvæm virkjun að Landsvirkjun telur ekki borga sig að reka hana, þá veit ég ekki til þess að neinn sé að skipa henni það. Það er að vísu svo að að sjálfsögðu hefur viðkomandi sveitarfélag, Aðaldælahreppur, af því nokkrar tekjur og eðlilega væri mönnum sárt um að missa þær, en það yrði þá hlutur sem menn mundu væntanlega verða að takast á við, enda gæti vel verið að aðstæður yrðu þá breyttar og hugsanlega búið að sameina sveitarfélög á þessu svæði. Mögulega kæmu til sögunnar nýjar virkjanir í staðinn sem væru á svipuðum slóðum og gæfu þá af sér tekjur þó annars staðar væri eða inn í stærra samhengi.

Mér finnst með öllu fráleitt að nota þessar ástæður sem eru ekkert nýjar og menn hafa einhvern veginn lifað við undanfarin ár sem rök fyrir því að fara út í þennan leiðangur. Ég skil það bara ekki. Og ég verð að segja alveg eins og er að Landsvirkjun sem mæðist í mörgu og hefur fengið menn upp á móti sér víða, vegna stórframkvæmdanna eystra, vegna ásælni sinnar gagnvart Þjórsárverum, vegna löngunar sinnar til að fara í Torfajökulssvæðið, vegna áhuga síns á Langasjó, er þetta ekki nóg? Þarf Landsvirkjun að etja mönnum út í það að rífa upp Laxármálið á nýjan leik líka? Er þetta einhver sjálfseyðingarhvöt? Vilja mennirnir vera í styrjöld á öllum vígstöðvum? En eins og kunnugt er og mannkynssagan segir okkur er það nú vís leið til að tapa þeim. A.m.k. máttu þeir reyna það Napóleon sálugi og fleiri sem lentu í því að berjast á of mörgum vígstöðvum í einu.

Það skyldi nú ekki vera að hér væri Landsvirkjun að gera mikil mistök þrátt fyrir alla sérfræðingana sína í almannatengslum, að láta frekjuna og græðgina bera sig svo ofurliði að ætla að þrýsta umhvrh. í að fara þessa leið því ég trúi ekki öðru en að þarna séu menn að leggja út í leiðangur vegna þess að þeir hafi verið beðnir um að fara í hann. Ég hef enga trú á því að það sem mönnum gangi raunverulega til sé að eyða lagaóvissu. Það er engin lagaóvissa. Það er nefnilega einmitt engin lagaóvissa í dag. Hún er alls ekki fyrir hendi. Þetta er algerlega skýrt. Virkjunin er óheimil samkvæmt lögum. (Gripið fram í.) Það á að búa til lagaóvissu með þessari þvælu, hæstv. umhvrh. Ég veit ekki hvaðan á jarðríki menn fá lögfræðinga til þess að skrifa upp á það að lög sem eru algerlega kristaltær og skapa enga óvissu af einu eða neinu tagi, banna viðkomandi framkvæmd, að það sé eitthvert vandamál samfara þeim. Þau búi til einhverja óvissu sem menn geti ekki búið við.

Um umhverfismatið --- það þarf ekkert umhverfismat þarna samkvæmt hinum lögformlega farvegi þegar meta á áhrif af umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Það er bara í allt öðru samhengi, hæstv. ráðherra. Það flettir ofan af mönnum. Það sýnir að það sem mönnum gengur til er að komast í þessa framkvæmd og það vita menn vel. Landsvirkjun langar þarna í 10--12 metra háa stíflu sem er auðvitað algerlega galin framkvæmd hvernig sem á hana er litið. Þarna á að verða söfnunarlón sem fyllist af sandburði á 20--25 árum. Og hvað ætla menn að gera við sandinn þegar þar að kemur? Engin svör. Ætla menn þá að fara að moka upp, dæla upp og keyra burtu, kannski á tún, þúsundum og aftur þúsundum tonna af svörtum sandi? Ég held að það verði nú handleggur. Og hvernig ætla menn að binda um hann? Eða hvað ætla menn að gera? Auk þess sem það er mjög umdeilt þetta sandburðarmál, sem heimamenn, margir, telja að sé á undanhaldi, a.m.k. fullyrða staðkunnugir menn við sunnanvert Mývatn að sandburður í Kráku fari nú mjög minnkandi, þökk sé m.a. uppgræðslu og hagstæðu tíðarfari á þeim slóðum undanfarin ár. Ég hygg að það þekki ekki aðrir menn betur en t.d. bændur á Grænavatni. Sama segja margir niður með Laxá og í sögulegu samhengi og m.a. nýlegar rannsóknir styðja það er ekkert sem gefur ástæðu til að ætla að sandburðarvandamál í Laxá séu meiri nú en þau hafa löngum verið og frekar jafnvel á undanhaldi. Hitt er ljóst að sandurinn er áratugi að færast niður alla ána þannig að kerfið tekur þó nokkurn tíma að leita jafnvægis á nýjan leik. Og það er ekki víst að minni sandburður í Kráká og með henni niður til Laxár segi til sín eða skili sér með minna sandi á ferðinni neðst í ánni fyrr en eftir þó nokkra áratugi af augljósum ástæðum, því þarna er auðvitað mikið uppsafnað magn á leiðinni niður. Þar af leiðandi verða ekki sótt nein sérstök rök í það. Heldur ekki að þessi sandburður sé endilega það sem hefur gert veiði daprari í Laxá nú síðustu ár en oft hefur áður verið. Má til samanburðar einfaldlega taka veiðisveiflur í hliðarám og nálægum ám sem eru ekkert í ólíkum takti við Laxá sjálfa í ýmsum tilvikum.

Frú forseti. Ég verð að segja það að síðustu og enn að auðvitað á að taka þetta ákvæði til bráðabirgða út. Ég skora á hæstv. ráðherra, ég skora á umhvn. Alþingis og ég skora á þingmenn að setja sig rækilega ofan í þetta mál. Og ég spái því að þá muni renna tvær grímur á menn, ef ekki rúmlega það, gagnvart því að fara svona fram í þessu máli.

Það er algerlega víst, eins og tvisvar tveir eru fjórir, að það er ávísun á mikil átök, mikla styrjöld á nýjan leik í Þingeyjarsýslum ef menn ætla að ganga svona fram. Menn skilja þetta sem nýja tilraun til að valta yfir þá með framkvæmd sem þeir eru þarna á móti. Ég held að menn muni ekki reynast þeir ættlerar í Þingeyjarsýslum, afkomendur þeirra manna sem stóðu þarna í eldlínunni og í fararbroddi fyrir 30 árum síðan, að þeir láti það þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga. Það verður ekki svo, hæstv. ráðherra. Og það munu ýmsir verða til þess að taka þátt í slagnum með þeim og þar á meðal sá sem hér stendur. Ég ætla ekki að bregðast þannig þeim vinum mínum í gröfinni, Eysteini á Arnarvatni, Starra í Garði og Hermóði Guðmundssyni, að ég geri ekki a.m.k. það sem í mínu valdi stendur til þess að það verði ekki valtað yfir vilja meiri hluta heimamanna þarna í þessu tilviki.

Landsvirkjun og við í okkar orkubúskap í landinu, okkur eru allir vegir færir. Og sé ekki í samkomulagi og sátt hægt að finna þarna leiðir til lagfæringa sem gera það fýsilegt fyrir Landsvirkjun að reka Laxárvirkjun áfram, þá verður bara að hafa það. Það eru engin vandamál að framleiða þá orku annars staðar. Þetta er ekki nema hluti þess sem má fá með stækkun Kröflu og aukinni framleiðslu víðar á svipuðum slóðum eða hvar svo sem menn vildu þá bera niður næst.

Færi svo að það tæki því ekki lengur að reka Laxárvirkjun við Brúar, mundi sá sem hér stendur gráta það þurrum tárum þó að þeim mannvirkjum yrði öllum mokað burtu og Laxá fengi aftur frjáls að renna um einhverjar fallegustu flúðir á Íslandi. Og þá ætti að mínu mati að fjarlægja brýrnar einnig og flytja þær til þannig að gljúfrin yrðu algerlega óspillt og ósnortin eftir því sem nokkur kostur væri. Svo vill til að í þessu tilviki er að langmestu leyti um framkvæmdir að ræða sem eru afturtækar. Þarna má í raun fjarlægja nánast öll mannvirki þannig að sáralítið ef nokkuð þurfi að sjást eftir. Það er endurheimt náttúrugæða. Það er endurheimt umhverfisgæða sem við eigum líka að hafa augun opin fyrir. Það efast varla nokkur maður um það hér í þessum sal að dytti einhverjum það í hug í dag að fara að reisa þarna virkjun á þessu svæði ósnortnu, þá kæmi það aldrei til greina. Það yrði talið óðs manns æði að bera þar niður. Það mundi ekki hvarfla að nokkrum manni.

[16:45]

Er ekki nærtækt að álykta sem svo að það gæti verið spennandi kostur að endurheimta svæðið í sinni upprunalegu mynd og eins ósnortið og kostur er? Ég er ekki að leggja það til og ég hef fullan skilning á viðleitni manna til að finna lausn sem felur í sér að menn geti rekið þessa ágætu virkjun, sem í raun og veru gerði mikið gagn og skilaði Akureyringum raforku á hagstæðu verði og var reyndar þeim ákaflega hagkvæm satt best að segja því að Laxá II var reist fyrir fé úr Mótvirðissjóði. Hún var því í raun og veru gjöf í þeim skilningi og síðar að stofni til þar sem hún gaf Akureyri eignarhlut sinn ásamt Laxá III í Landsvirkjun. Það er því ekki eitthvað sem menn eiga að fælast, herra forseti, og hrökkva frá þó að það gætu komið til á einhverju stigi mála breytingar af því tagi.

En ákvæðið svona fram komið og í fullkominni ósátt og andstöðu við heimamenn tekur engu tali, hæstv. forseti, og það á að fara út úr frv.