Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:49:18 (4502)

2004-02-23 16:49:18# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ekki liggja nógu vel á hv. þm. á þessum mánudegi og hann blandar hlutum í þetta mál sem ég nefndi aldrei á nafn og fólust ekkert í mínu máli. Ég minnist þess ekki að hafa rætt kísilgúrverksmiðju í Mývatnssveit, þaðan af síður álverksmiðjur einhvers staðar annars staðar og enn síður tók ég þannig til orða að ef þær legðust af eða risu ekki þá yrði bara að hafa það.

Ég var að ræða um eina tiltölulega litla vatnsaflsvirkjun sem eru núverandi virkjanir í Laxá. Ef mat eigandans, Landsvirkjunar, er að það séu svo miklir annmarkar á rekstri virkjunarinnar að það borgi sig ekki að reka hana áfram í óbreyttri mynd, sé ég ekki betur en að það sé þeirra mál. Þá segi ég aftur: Þá verður að hafa það.

Ég fór yfir það að auðvitað mundu menn missa tekjur í Aðaldælahreppi, en kannski risi önnur virkjun, kannski stækkuðu menn Kröflu eða framleiddu rafmagn annars staðar á svæðinu, mögulega innan marka stærra sveitarfélags sem tæki til Aðaldælahrepps og nálægra svæða. Þar með þyrfti það ekki endilega að þýða tekjutap þegar á stærra svæði yrði litið.

Ég geri ekkert lítið úr Laxárvirkjun og gildi hennar og algerlega ástæðulaust að gera mér þannig upp skoðanir eða leggja mér þau orð í munn sem ég viðhafði aldrei í minni ræðu og allra síst ætti virðulegur forseti Alþingis, 2. þm. Norðaust. að gera slíkt.

Þetta er hins vegar ekki stórmál af því tagi að það sé óviðráðanlegt og menn hafi ekki ráðist í aðrar eins breytingar. Ég lét það eftir mér að nefna það til sögunnar að þá gætu opnast miklir möguleikar til endurheimtar náttúrugæða sem væri eftirsóknarvert.

Finnst hv. þm. það ekki spennandi tilhugsun? Getur hann ekki séð það fyrir sér, ljóðelskur og fagurkeri eins og hv. þm. er, að það gæti verið gaman að sjá Laxá falla aftur frjálsa niður flúðirnar hjá Brúum ef við getum framleitt orkuna með ódýrari hætti annars staðar og Landsvirkjun sem rekstraraðili metur það svo að það sé hagkvæmast? Það á ekki að loka fyrir fram á að það geti orðið möguleiki.

Ég tók það líka skýrt fram að fyndist tæknileg leið í samkomulagi aðila um að ráða úrbót á þessu væri ég stuðningsmaður þess að það yrði gert.