Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:53:50 (4504)

2004-02-23 16:53:50# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er einmitt sá að það er ekki verið að gera það með þessari aðferð. Í því fólst meira og minna öll mín ræða. Ég var að setja þetta í samhengi við aðstæður sem lágu til grundvallar sátta í Laxárdeilunni á sínum tíma og eru enn til staðar. Það er verið að fara kolranga leið að því marki. Ef ætlunin er að ná einhverjum sáttum og samkomulagi um breytingar sem gætu bætt rekstur Laxárvirkjunar, er þetta ekki leiðin. Þetta er aðferðin að segja sundur friðinn og griðin og leggja af stað með málið í ófriði. Það verður að ræða hlutina eins og þeir eru og þeir eru þannig að menn hafa verið tilbúnir til viðræðna um að skoða takmarkaðar breytingar sem fælu í sér breytingar á inntakslóninu, jafnvel 3--4 metra hækkun stíflunnar.

Menn vilja ekki láta raska jafnvæginu í samskiptum aðila út á galopinn víxil sem heimilar ótilgreinda hækkun stíflunnar efst í Laxárgljúfrum. Hækkunin gæti þess vegna orðið 15 eða 20 metrar, lagaheimildin er opnuð til slíks. Það sem skipti sköpum í deilunni á sínum tíma var að Laxárvirkjunarstjórn hafði ekki heimild í gildandi lögum um Laxárvirkjun fyrir þeirri stóru virkjun sem Gljúfurversvirkjun átti að vera. Það gagnaðist landeigendum í slag þeirra við virkjunaraðila fyrir dómstólum og átti sinn þátt í því að þeir fengu sett lögbann á óleyfilega hækkun vatnsborðs í Laxá umfram þær virkjunarheimildir sem fyrir voru í lögum.

Þessari stöðu, þessu jafnræði aðila að lögum á að raska með ákv. til brb. og láta það standa þannig í tíu ár. Það eru ekkert annað en svik við gamla samkomulagið. Það er kolröng aðferð ef menn hafa áhuga á því að reyna að vinna í andrúmslofti einhvers mögulegs samkomulags um breytingar á virkjuninni.