Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:56:04 (4505)

2004-02-23 16:56:04# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að verið væri að rjúfa grið og brjóta sáttargjörð. Það er algjörlega rangt. Ég heyri ekki betur en hv. þm. sé að reyna að æsa menn upp með þessum orðum.

Hv. þm. las sjálfur upp úr sáttargjörðinni og þar kemur fram að ekki megi fara í vatnsborðshækkanir nema til komi samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns. Það er einmitt verið að setja það í ákv. til brb., það er verið að lögfesta þetta svokallaða neitunarvald, ef við getum kallað það það. Það er ekki hægt að fara í framkvæmdir þarna nema Landeigendafélagið fallist á slíkt og telji það ásættanlegt. Það er verið að lögfesta það.

Af hverju í ósköpunum segir þingmaðurinn að verið sé að rjúfa sáttargjörðina, rjúfa grið? Þetta er alveg með öllu óskiljanlegt.

Það er rétt hjá hv. þm. að það þarf samkomulag og sátt til að þetta verði að veruleika. Ef hún næst ekki verður bara að hafa það. Það er algjörlega rétt. Ef ekki næst samkomulag á milli aðila verður ekkert úr hugsanlegum framkvæmdum.

Hv. þm. sagði líka að heimamenn væru á móti framkvæmdinni. Ég hef ekki heyrt að það hafi reynt á það. Ég átti fund með heimamönnum og þeir voru mikið að tala um útfærslu, m.a. varðandi Kráká. Ég býst við að það verði skoðaðar ýmsar útfærslur í umhverfismati.

Landeigendafélagið hefur ekki komið saman um nokkurn tíma. Fyrir nokkrum árum munaði engu að menn næðu samkomulagi um einhverja 8 metra, að mér er sagt. Það er því alls ekki þannig að heimamenn lýsi sig á móti öllum hugmyndum. Ég get vitnað í Morgunblaðsviðtal við Atla Vigfússon stjórnarformann í Landeigendafélaginu um daginn. Hann sagði að menn vildu ná sátt um málið.