Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 17:02:37 (4508)

2004-02-23 17:02:37# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að fara varlega í að láta að því liggja að stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns tali ekki í fullu umboði félagsmanna sinna. Ég spái hæstv. ráðherra því að svo muni reynast, að það verði yfirgnæfandi samstaða í landeigendafélaginu, sem reyndar fjölgar í þessa dagana, gegn þessum framkvæmdum.

Ég held að hreyfingin í umræðunni heima í héraði sé öll í þá átt, að menn séu að harðna í afstöðu sinni gegn þessum framgangsmáta ríkisstjórnarinnar vegna þess hvernig komið er fram við þá. Menn hafa ekki mikinn áhuga á því að láta hefjast nýtt samskiptaskeið af því tagi sem einkenndi Laxárdeiluna lengi framan af þegar ekkert átti að gera með skoðanir þeirra. Hæstv. ráðherra veit vel að meiri hluti stjórnar Landeigendafélags Laxár og Mývatns var á móti því að þetta færi svona inn í frumvarpið. Það þýðir ekki að tala öðruvísi um það.

Í öðru lagi er það svo, eins og ég reyndi að fara rækilega yfir í ræðu minni, að samningurinn og lögin eru í raun og veru nátengd. Eitt er afsprengi annars. Það er engin tilviljun að orðalagið er eins og það er í lögunum frá 1974. Grundvöllur sáttargerðarinnar er að Laxárvirkjunarstjórnin afsalaði sér möguleikum til frekari virkjana og féll frá því að hækka vatnsborðið. Það er sett yfir í lögin, skýlaust ákvæði sem bannar framkvæmdir sem hækka vatnsborðið nema það sé til verndar vatnsfallinu sjálfu eða ræktunar í því. Þetta verður hæstv. ráðherra að horfast í augu við.

Varðandi það sem ég sagði um stífluhæð þá benti ég á að vitað væri um áform um 10--12 m hækkun stíflunnar. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti staðfest að það sé rétt. Það hefur birst á prenti að Landsvirkjun teldi sig þurfa slíka hækkun. Heimildin í ákvæði til bráðabirgða III er hins vegar óskilgreind. Það er engin tala sett þar inn. Það gætu orði 6 m og gætu orðið 16 m ef maður leikur sér með það þannig.