Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:46:31 (4514)

2004-02-23 18:46:31# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og ég sagði áður merkilegt að hv. þm. skuli halda sig við það að hann treysti ekki landeigendafélaginu til að sjá um sig sjálft. Það er skýrt tekið fram í þessu frv. að ekki verði úr framkvæmdum nema með samþykki landeigendafélagsins. Viðræður þeirra hafa enn ekki farið fram og við vitum að ekki er hægt að fara í umhverfismat eða undirbúa þessar framkvæmdir nema þær séu löglegar, sem ekki er eðlilegt heldur, þannig að fyrst verður á það að reyna hvort Alþingi vilji gefa þessum aðilum tækifæri til að tala saman.

Hv. þm. getur auðvitað sagt hér, ég þekki það ekki, að stjórn landeigendafélagsins sé á móti hverju sem er til þess að reyna að draga úr sandburði, til þess að reyna að draga úr klakaburði, til þess að reyna að bæta rekstrarafkomu stíflunnar. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þm. að stjórn landeigendafélagsins sé búin að ákveða að vera fyrir fram á móti öllu. Ef það er niðurstaðan þá kemur það í ljós, en ég vil láta reyna á það. Ég tek ekki orð þingmannsins gild að þessu leyti.