Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:56:12 (4521)

2004-02-23 18:56:12# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., DJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Dagný Jónsdóttir:

Frú forseti. Hér er aftur komið fram frv. til nýrra laga um verndun Mývatns og Laxár. Mikil vinna liggur að baki þess frv. en það er í meginatriðum samið af nefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða eldri lögin frá árinu 1974. Þessi endurskoðun laut ekki síst að þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu árum á stjórnsýslu náttúruverndarmála, m.a. með nýjum lögum um náttúruvernd frá árinu 1999.

Heimamenn, og þá sérstaklega sveitarstjórn Skútustaðahrepps, hafa þrýst mjög á að þessar breytingar á lögunum yrðu samþykktar. Sjónarmið þeirra er að færa meðferð mála til nútímans. Sveitarstjórnin telur að með núgildandi lögum sé tekið frá henni vald sem almennt er í höndum sveitarstjórna í landinu og þá fyrst og fremst í skipulags- og byggingarmálum. Einnig hefur stjórnsýslan í tengslum við lögin talist of þung í vöfum. Áðurnefnd nefnd tók tillit til þessara athugasemda en lagði þó til að verndun Mývatns og Laxár yrði áfram bundin í sérlögum.

Í 6. gr. frv. er nýmæli þar sem kveðið er á um gerð verndaráætlunar fyrir Skútustaðahrepp og Laxá allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa. Þessi verndaráætlun mun þannig ná til alls þess svæðis sem fellur undir núgildandi lög. Vinna við þessa áætlun er þegar hafin en byggt er á rannsóknum síðustu áratuga.

Hv. umhvn. fær þetta frv. inn á sitt borð núna á næstunni og án efa munu margar umsagnir berast og ekki síst um ákvæði til bráðabirgða III. Ljóst er að málið er viðkvæmt og sagan er sterk. Rök bæði með og á móti hafa verið reifuð í umræðunni í dag og verð ég að segja að áhugavert verður að lesa umsagnir sem hv. umhvn. mun fá.

Það er rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á í ræðu sinni áðan að málið er ekki einfalt og að taka þarf tillit til margra þátta. Okkar í hv. umhvn. bíður það verkefni að vega og meta kosti og galla þessa bráðabirgðaákvæðis sem og frv. í heild sinni.