Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:42:23 (4527)

2004-02-24 13:42:23# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Jón Gunnarsson:

Hæstv. forseti. Fiskveiðistjórnarkerfi okkar byggir á viðamiklum hafrannsóknum sem eru undirstaða þess að unnt sé að ákvarða heildarafla úr hverri tegund nytjastofna á ári hverju. Eða þannig segjum við yfirleitt frá því þegar um er spurt. En er þetta í raun þannig?

Er Hafrannsóknastofnun gert kleift að stunda þær rannsóknir sem hún telur nauðsynlegt að fara í? Eru ákvarðanir um heildarafla alltaf grundaðar á fullkomnum rannsóknum og teknar á grundvelli bestu fáanlegra gagna? Svo tel ég ekki vera með tilliti til þess að stofnunin fær alls ekki það fé til rannsókna á fiskstofnum sem hún telur sig þurfa.

Eftir að lögum var breytt og verðmæti svokallaðs hafrókvóta rennur ekki lengur beint til Hafró heldur í verkefnasjóð sjávarútvegsins hefur það fé sem stofnunin hefur til að mæta þörfum fyrir auknar rannsóknir enn minnkað. Allir sem um fjalla vita að án fullkominna rannsókna verður veiðiráðgjöfin og þær ákvarðanir sem á henni byggja ekki eins vandaðar og æskilegt væri. Því hlýtur það að vera eitt af forgangsmálum okkar að tryggja að nauðsynlegar grunnrannsóknir á fiskstofnunum í kringum landið fari fram og fjárskortur hamli þeim ekki.

Í þessu samhengi er rétt að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort Hafró hafi sóst eftir fjármunum úr hinum nýja verkefnasjóði sjávarútvegsins til rannsóknarverkefna og hvort hann hyggist standa fyrir því að veita Hafró einhvers konar fyrir fram skilgreindan kvóta af þeim fjármunum.

Einnig er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir auknum fjármunum til Hafró eftir að veiðigjaldið, eða svokallað auðlindagjald, verður innheimt af útgerðum og handhöfum kvóta á hausti komanda. Ljóst er að þörfin fyrir auknar rannsóknir og aukið úthald rannsóknarskipa er fyrir hendi. Ljóst er að Hafró telur sig þurfa auknar rannsóknir. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er einungis sú hvort núverandi ráðamenn telji það hlutverk sitt að stuðla að því að svo geti orðið