Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:44:41 (4528)

2004-02-24 13:44:41# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek undir það hjá hæstv. ráðherra að efalaust eru á hverjum tíma til hugmyndir um rannsóknir sem menn telja nauðsynlegt að ráðast í umfram það fjármagn sem menn telja sig geta útvegað til stofnana eða vísindamanna sem geta stundað þær. Við getum ekki gengið út frá því að geta í framtíðinni frekar en nú mætt öllum óskum sem upp koma um rannsóknir. Ég hygg að menn verði að viðurkenna að það eru takmörk á því eins og öðru.

[13:45]

Á hinn bóginn tek ég undir það að mér finnst nokkuð hafa skort á að menn hefðu nægilegt svigrúm hjá Hafrannsóknastofnun til að gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru. Það dæmi sem hér kom upp varðandi loðnurannsóknir er skýrt dæmi um það að stofnunin hafði ekki nægilegar upplýsingar til þess að geta tekið ákvörðun um ráðleggingu á loðnukvóta, sem síðar kom í ljós eftir sérstaka ferð að reyndist vera unnt að auka. Við hefðum misst af verulegum verðmætum ef stofnunin hefði ekki fengið pólitískan stuðning, skulum við segja, frá hæstv. ráðherra til þess að ráðast í frekari rannsóknir.

Það er víðar sem þörf er á að skoða frekari breytingar sem eru að verða í lífríkinu og ég minni á þær breytingar sem orðið hafa í Húnaflóa þar sem rækjustofninn sem þar er virðist hafa horfið eða verið étinn af þorskinum og við höfum kannski ekki svör við öllum þeim spurningum sem vaknað hafa í framhaldi af því. Þetta hefur gert mönnum erfiðara fyrir að stunda sína útgerð við Húnaflóa sem byggt hafa tekjur sínar að nokkru leyti á rækjuútgerð.

Ég minni líka á þá stöðu sem er í Ísafjarðardjúpi, sem er mjög sérstök, og ég veit ekki dæmi um að komið hafi upp áður. Þarna hafa veiðst um 1.500 tonn af rækju á ári og skapa miklar tekjur til útgerðar við Djúp. Nú er allt útlit fyrir það að ekki verði unnt að veita leyfi til veiða á nokkurri rækju og það vantar frekari rannsóknir til þess að fá upplýsingar um það mál, herra forseti.